Staðan í kjaramálunum - Flosi Eiríksson
Flosi.jpg

Samfylkingin í Kópavogi fær Flosa Eiríksson framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins í heimsókn mánudaginn 4. febrúar kl. 20 í Hlíðasmára 9 í Kópavogi.

Flosi ætlar að segja okkur allt um baráttuna í dag í kjaraviðræðunum og þær breytingar sem eru í loftinu.

Allir velkomnir - takið með ykkur gesti

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 21 janúar 2019
Bæjarmálafundur6.jpg

Á bæjarmálafundum Samfylkingarinnar í Kópavogi ræðum við þau pólitísku mál sem eru í gangi á hverjum tíma og bæjarfulltrúar fara yfir þau málefni sem liggja fyrir bæjarstjórnarfundi daginn eftir.
Þetta er vettvangur fyrir alla sem vilja taka hið pólitíska samtal.

Vertu velkomin/n á bæjarmálafund annan og fjórða mánudag í mánuði kl. 20 í Hlíðasmára 9.

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 7. janúar 2019
Bæjarmálafundur3.jpg

Mánudagskvöldið 7. janúar kl. 20 verður haldinn fyrsti bæjarmálafundur ársins.

Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu fara yfir sameiginlegar tillögur minnihlutans að verkefnum ásamt því að gera grein fyrir aðalatriðum sem liggja fyrir næsta bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 8. janúar.

Allir að mæta í Hlíðasmára 9 og taka þátt í umræðunni.

Við þurfum á ykkur að halda

Bestu kveðjur

Pétur Hrafn og Bergljót

Bergljót Kristinsdóttir
Logi kemur í heimsókn
Logi 3 des 18.png

Mánudaginn 3.desember kl. 20 mun Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar koma í heimsókn til okkar í Hlíðasmárann og segja okkur frá því hvað þingflokkurinn er að aðhafast í þjóðmálunum. Vonandi lumar hann á einhverjum skemmtisögum úr þinginu til að krydda tilveruna.

Allir að mæta. Við bjóðum upp á jólahressingu og alles í tilefni aðventunnar.

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarstjórnarfundur 13.11.2018
bæjarstjórn.jpg

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fóru í pontu og reifuðu ýmis mál á síðasta bæjarstjórnarfundi. Dagskrármál var fyrri umræða um fjárhagsáætlun Kópavogs sem tók sinn skerf. Fjárhagsáætlun var unnin í samvinnu allra bæjarfulltrúa í fjórða sinn, þannig teljum við að okkar mál nái frekar framgangi.

Hér eru þau mál sem Pétur reifaði:

Fjárhagsáætlunin:
Mörg jákvæð atriði í fjárhagsáætluninni. Rekstrarumhverfi hefur verið jákvætt fyrir sveitafélögin um land allt og er Kópavogur þar ekki undanskilinn.

Nefna má aukin sálfræðiþjónusta í grunnskólum um 40 klst. á viku. Snemmtæk íhlutun í leikskólum
Aukinn stuðningur við börn með sérþarfir. Hækkun til málaflokks fatlaðra sem og til heilsueflingar starfsmanna bæjarins.

Menntamál:
Bæjarfulltrúar samfylkingarinnar lögðu áherslu á að þau börn sem eru með annað móðurmál en íslensku fengju fleiri kennslustundir en nú er og því fylgir auðvitað kostnaður. Samþykkt var sem fyrsta skref að kaupa mælitæki til að skoða málið í Kópavogi og er það fyrsta skrefið, en margir sérfræðingar hafa talið að mikið brottfall nemenda af erlendu bergi brotnu úr grunn- og menntaskólum megi rekja til slakrar íslenskukunnáttu. Úr því er brýnt að bæta.

Húsnæðismál:
200 milljónir fara til kaupa á félagslegu húsnæði. Þessi tala hefur verið óbreytt undanfarin 4 ár, en vonandi þessi tala margfaldast ef samningar nást við ríki um uppbyggingu á félagslegu húsnæði og leiguhúsnæði. Okkar 200 milljónir eru 12% af upphæðinni og ef ríkið kemur með 18% og aðrir aðilar  með afganginn eða 70% erum við að tala um byggingu eða kaup á húsnæði fyrir 1.5 milljarð króna í Kópavogi. Leggja verður áherslu á að ná samningum.

Fasteignaskattur:
Fasteignaskattur lækkar 0.23 í 0.22 sem er 4.8% en tekjur hækka um 6.7% sem skýrist að stærstum hluta af því að fasteignamat í Kóp hefur hækkað verulega. Skattalækkun eða skattahækkun? Skattprósentan lækkar en hver íbúðareigandi greiðir fleiri krónur í fasteignasatt á árinu 2019 en hann gerði á árinu 2018.  Klassísk umræða.
Vatnsskattur og holræsagjald lækkar, enda lögbundið að Kópavogur má ekki græða á vatnsveitu og fráveitu og staða veitufyrirtækjanna er þannig að Kópavogur verður að lækka gjöldin.

Stjórnsýslan:
Laun og launatengd gjöld í hlutfalli við rekstrartekjur hafa vaxið úr 46,2% á árinu 2012 yfir í 55.8% í áætlun 2018 og verður 55.3% í áætluninni fyrir næsta ár.
Sama má segja um annan rekstrarkostnað í hlutfalli við rekstrartekjur sem hefur lækkað úr 32% á árinu 2012  í 29% árið 2017 en nú i áætlun 2019 fer hann upp í 32,4%.

Afborganir lána:
Kópavogsbær hefur fengið tekjur af sölu lóða, sem hafa meðal annars runnið til afborgana á lánum og til framkvæmda og þannig gert bænum kleyft að gera hvoru tveggja án þess að auka á lántökur á undanförnum árum. Nú er útlit fyrir á næstu árum að þessar tekjur af lóðasölu minnki og því mikilvæt að huga að rekstrarkostnaði og gæta þess að hann fari ekki úr böndum, hvort heldur sem um er að ræða laun og launatengd gjöld eða annan rekstrarkostnað. Því það verður reksturinn sem verður að standa undir greiðslum vegna afborgana og framkvæmda á næstu árum án viðbótartekna af lóðasölu.

Ramminn:
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir rúmum tæpum 30 milljörðum í skattekjur. Stærstur hluti áætlunar er í ramma sem settur var við fjárhagsáætlunargerð árið 2010. Síðan hefur ramminn ekki verið endurskoðaður af kjörnum fulltrúum. Ég tel að í fjárhagsáætlunargerð á næsta ári sé kominn tími til að kjörnir fulltrúar kafi ofan í rammann og fari þannig mun dýpra í fjárhagsáætlunargerðina heldur en gert hefur verið undanfarin ár.

Húsnæðisfélagið Bjarg:
Björn traustason mætti á fund bæjarráðs og kynnti hugmyndir Bjargs sem er íbúðafélag í eigu ASÍ og BSRB og hefur það að markmiði að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði sem er ekki hagnaðardrifið og býður tveim lægstu tekjufimmtungunum upp á gott en ódýrt leiguhúsnæði. Bjarg hefur óskað eftir samstarfi við Kópavog, Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa flutt tillögu um slíkt samstarf á síðasta kjörtímabili. Við styðjum slíkt samstarf og ég beini því til bæjarstjóra og til formanns bæjarráðs bæjarfulltrúa Birkis Jóns Jónssonar og til bæjarfulltrúa meirihlutans um að tryggja slíkt samstarf á næstu vikum og mánuðum. Bjarg er með vilyrði fyrir lóðum fyrir 1.000 íbúðum í Reykjavík og 100 í Kópavogi. Ekkert í Kópavogi. Mikilvægt að tryggja fjölbreytni í húsnæðismálum í Kópavogi. Bjarg er ein leiðin í þeim efnum.

Óhapp hjá Málningu hf.:
Í fundargerð heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópvogs kemur fram bréf til Málningar vegna mengunar í Kópavogslæknum. Undirritaður vakti athygli  á málinu í bæjarráði og ánægjulegt að bæjarráð bókaði samhljóða Bókun: 
Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum vegna mengunartilvika sem upp eru að koma í Kópavogslæk. Bæjarráð óskar eftir að Heilbrigðiseftirlitið taki málið til nánari skoðunar.

Plastpokanotkun:
Undirritaður lagði fram tillögu um plastpokanotkun hjá  Kópavogsbæ í Bæjarráði frá 8.nóvember og að leitað verði leiða til að draga úr henni. Tillögunni var vísað til gerðar umhverfisáætlunar og leit bæjarráð jákvætt á málið. Bæjarfulltrúi VG, Margrét Júlía Rafnsdóttir kom með tillögu um plastnotkun á síðasta kjörtímabili. Þeirri tillögu var vísað til umhverfissviðs. Síðan gerðist ekkert, ekkert og það þrátt fyrir ítrekanir bæjarfulltrúans þáverandi. Ég mun fylgja þessari tillögu eftir og vonandi verða það ekki örlög hennar að týnast einhverstaðar í kerfinu. Vonandi verður meðgangan ekki eins löng og stofunun Öldungaráðs.

Og hér eru þau mál sem Bergljót snerti á:

Fjárhagsáætlun:
Ég óska eftir að koma með breytingatillögu að fjárhagsáætlun. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegast að hún hefði komið fram fyrr í ferlinu en því miður gafst ekki ráðrúm til þess.

Mig langar að fara þess á leit að bæjarsjóður standi straum af a.m.k. einni rútuferð á árgang í grunnskólum bæjarins á ári sem er eyrnamerkt listviðburði utan skólans. Erfiðleikar með far til og frá skóla hafa staðið því fyrir þrifum að grunnskólabörn fái að njóta listviðburða á skólatíma. Kennarar hafa gefist upp á að reyna að koma heilum árgangi til og frá skóla með strætó. Einungin má fara með 20 börn í einu í hvern vagn og ekki er nægilega margt starfsfólk til að halda utan um stærri hópa fyrir nú utan þann tíma sem slíkt ferðalag tekur. Með þessari einu aðgerð gefum við börnum bæjarins mjög aukna möguleika á að fá að kynna sér listviðburði og menningarhús af eigin raun.

Ég óska eftir að þessi þáttur verði kostnaðargreindur þannig að hægt sé að áætla fyrir honum fyrir næsta skólaár og málið tekið fyrir við seinni umræðu fjárhagsáætlunar.

Sorpa:
Í rekstraráætlun Sorpu 2019 – 2023 sem kynnt var á fundi stjórnar Sorpu 24.10 s.l. kemur fram að magnaukning á mótteknu sorpi frá árinu 2010 til 2017 sé 62%. 62% á 8 árum. Það er töluvert. Árið 2017 náðum við aftur að safna sama magni af rusli og hið fræga ár 2008. Þessi sorphirðutala mun halda áfram að hækka í nánustu framtíð með sama hraða nema við gerum eitthvað í málunum.
Nú biðlar Sorpa til sveitarfélaganna um að fara í átak með íbúum og fyrirtækjum til að flokka sorp betur. Þannig megi endurvinna stærri hluta sorps sem er ódýrari meðhöndlun og umhvefisvænni en urðun.  Hér eigum við í Kópavogi að taka frumkvæði og fara af krafti í vitundarvakningu í okkar bæjarfélagi og jafnvel beita kvöðum að hluta. Við verðum að taka á þessu máli. Því miður eru enn allt of margir sem ekki leggja sitt lóð á þessa vogarskál. Flokkun sorps er eitthvað sem við getum gert. Við getum ekki fækkað eldgosum eða ákveðið að fækka flug- og skipaferðum til að minnka kolefnisspor okkar og þannig að ná markmiðum Parísarsáttmálans. En þetta getum við hvert og eitt lagt til. Bætt sorphirðu og breytt neysluhegðun okkar til að minnka sorp. Bæjarfélagið þarf að vera í fararbroddi og draga þennan vagn.

Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir Sorpu sér þess ekki stað í rekstrarniðurstöðu vegna mikillar magnaukningar á sorpi. Aukin sorphirða þýðir aukin fjárútlát hjá bæjarbúum þar sem gert er ráð fyrir að sorphirðugjöld standi alfarið undir hirðingu og förgun. Við getum notað það sem hvatningu til bæjarbúa. Gjöld munu halda áfram að hækka nema spyrnt sé við fótum.

Meðal þess sem Sorpa bendir á sem hagræðingu er að fækka þurfi og stækka endurvinnslustöðvar sem eru nú 6 talsins á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega eru nefndar stöðvarnar við Dalveg og Jaðarsel sem eru á of þröngu svæði. Þetta eigum við að skoða sem tækifæri og færa núverandi stöð við Dalveg yfir Reykjanesbrautina á svæði á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs í samvinnu við Reykjavík. Þannig mætti mögulega fækka um eina stöð og ná fram brýnni hagræðingu.

Það er í mörg horn að líta ef við ætlum að standa við stóru orðin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars mætti bæta undirmarkmiði 13.3 inn á stefnumótunarlistann okkar í Kópavogi. Þar er fjallað um að auka menntun til að vekja fólk til meðvitunar um hvernig mannauður og stofnanir geti haft áhrif og brugðist við loftlagsbreytingum. Allt sem við getum gert telur til framtíðar.

Vona að Bæjarfulltrúi Birkir Jón Jónsson formaður stjórnar Sorpu bregðist fljótt við ósk minni um vinnufund um sorphirðu og förgun ásamt sérfræðingum á því sviði svo við kjörnir fulltrúar getum stillt saman strengi okkar í þessum mikilvæga málaflokki.

Óhapp hjá Málningu hf.:
Og talandi um heimsmarkmiðin langar mig að minnast á óhapp sem varð hjá Málningu hf. um daginn og olli því að Kópavogslækurinn tók á sig hvítan lit. Það er löngu tímabært að hætta að veita frárennsli í lækinn og vernda það viðkvæma vistkerfi sem þar er. Yfirborðsfrárennsli á að fara í síu og síðan beint á haf út. Þannig getum við stuðlað að bætingu samkvæmt markmiði 15 um verndun vistkerfa í heimsmarkmiðunum. Væri ekki ráð að nýta þann rekstrarafgang sem nú fæst frá fráveitu Kópavogs til að fara í það verkefni?

Húsnæðismál:
Andsvar við ræðu bæjarstjóra: Þótt 85% svarenda í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs vilji kaupa húsnæði í dag má ekki skilja það þannig fólk í þeim flokki mundi ekki alveg eins vilja leigja ef leigumarkaðurinn væri með öðrum formerkjum. Leigufélög í Danmörku eru 200 ára gamalt húsnæðisform sem hefur staðið af sér allar kreppur og fólk vill búa í slíku kerfi, m.a. vegna þess að fólk í dag vill ekki þurfa hafa áhyggjur af viðhaldi húsnæðis.

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 12.11.2018
fundur.jpg

Mánudaginn 12. nóvember kl. 20 verður bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í Kópavogi. Hann er haldinn í húsakynnum okkar við Hlíðasmára 9. Þar ætlum við að eiga gott samtal um þau málefni sem brenna á okkur og það sem bæjarfulltrúarnir telja að þurfi að ræða fyrir bæjarstjórnarfund sem verður daginn eftir.

Allir félagsmenn eru velkomnir

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Allt um öldrunarmál í Kópavogi

Anna Klara deildarstjóri öldrunarmála hjá Kópavogsbæ ætlar að fræða okkur um stöðuna í málaflokknum í dag, þjónustu í boði, samþættingu heimaþjónustu og - hjúkrunar, heilsueflandi hreyfingu fyrir eldri borgara, hvernig leysa á biðlistavandamálin og svo kemur hún með heitar lummur um málefni aldraðra beint frá Danmörku.

Fundurinn er haldinn í Hlíðasmára 9, Kópavogi, mánudaginn 5. nóvember kl. 20.

allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarstjórnarfundur 23. október 2018

Við Elvar Páll Sigurðsson sátum bæjarstjórnarfund í dag og sáum til þess að umræður sköpuðust um húsnæðis- og sorpmál. Þetta var annars stysti bæjarstjórnarfundur sem ég hef setið, tæpir 2 tímar. Við komum þó í gegn að það verður haldinn vinnufundur um sorpmál. 
Hér eru ræður okkar og mynd af Elvari í pontu í fyrsta sinn.

Ræða Elvars:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar,

Mig langar að tala um fundargerð bæjarráðs frá 11. október þar sem Bjarg íbúðafélag óskaði eftir viðræðum við Kópavogsbæ varðandi samstarf um uppbyggingu almennra íbúða. Ég fagna því og vona að Kópavogsbær taki þessari ósk alvarlega. Bjarg íbúðafélag er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Þetta gæti komið sér vel fyrir meðal annars ungt fólk í bænum, ungt fólk sem er fast heima hjá foreldrum sínum, kemst ekki á almenna leigumarkaðinn og getur ekki keypt sér íbúð. Að mínu mati á Kópavogsbær að horfa út fyrir boxið í húsnæðismálum og þar kemur samstarf við Bjarg inn. Einnig tel ég mjög brýnt að Kópavogsbær skoði með fullri alvöru að byggja stúdentaíbúðir í bænum.

Í velferðarráði kom svo fram eftir fyrirspurn frá Samfylkingunni að það eru 126 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það þarf að vinna á þennan biðlista með einhverjum hætti. 63% af biðlistanum er fólk undir 40 ára, aðeins einn er yfir 67 ára. 51% eru einstaklingar án barna og 38,1% eru einstæðir foreldrar með 1 barn. Stærsti hópurinn bíður eftir 2ja herbergja- eða stúdíóíbúð. Þar er mesta þörfin og þar er lítið framboð á markaði og verð hátt. Það er einnig áberandi að ungt folk er í meirihluta þeirra sem eru á biðlista og því brýnt að bregðast við.

Ræða Bergljótar:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Í Fundargerð Sorpu frá 3.10 s.l. kemur fram að erfiðlega gengur að semja við Sorpstöð Suðurlands um nýjan urðunarstað á Suðurlandi sem þó hefur verið í bígerð í nokkur ár. Urðun á Álfsnesi á að leggjast af mjög fljótlega og því nauðsynlegt að finna nýjan stað.
En enginn vill sjá um urðun sorps í dag. Við verðum að gera ráð fyrir takmörkun á urðunarstöðum til framtíðar. M.a í ljósi þess hefur byggðasamlagið Sorpa fengið heimid til að taka lán til að starta framkvæmdum við jarð- og gasgerðarstöð sem á að minnka töluvert það magn sem í dag er urðað. Til þess að það megi gerast þarf sorphirða að breytast. Samkvæmt sérfræðiáliti er ekki hægt að setja innihald almennu sorptunnunnar í Jarð- og gasgerðarstöðina þó svo vonir standi til þess. Samkvæmt mínum upplýsingum verður flokkun almenns sorps á móttökustað aldrei nógu góð þannig að tryggja megi að sá jarðvegur sem framleiða á verði boðlegur. Það þýðir að miðað við núverandi sorphirðu leggst lítið til jarðgerðarstöðvarinnar. 
Enn eru mörg skref óstigin í sorphirðu og samkvæmt tölum Eurostat frá 2016 stendur Ísland sig afar illa m.v. aðrar Evrópuþjóðir. Sem dæmi er Ísland í 5 neðsta sæti í endurvinnslu plasts í Evrópu með aðeins 50% endurvinnslu og Ísland er í 4 neðsta sæti ef við mælum plastúrgang per íbúa sem er um 45 kg á ári.

Á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar þann 4. september s.l. var tekin fyrir tillaga um kröfu um flokkun sorps á byggingarstöðum við úthlutun lóða. Þetta er fín tillaga og er eitt skref í rétta átt. Við þurfum hins vegar að ganga lengra. Það er ekki nóg að heimilin flokki, fyrirtækin þurfa einnig að flokka og við þurfum að kenna einstaklingum að flokka í mun meiri mæli en nú er gert. Við þurfum að koma af stað vitundarvakningu um flokkun og plastnotkun. Það gerum við í samvinnu við fyrirtækin og heimilin í bænum. 
Vegna þessa tel ég nauðsynlegt að bæjarstjórn Kópavogs haldi vinnufund með sérfræðingum um sorphirðu og þá möguleika sem við höfum til að þessi mikla fjárfesting sem við ætlum að binda í Jarð- og gasgerðarstöðinni skili sér til okkar. Jafnframt getum við verið í fararbroddi innan byggðasamlagsins ef við náum betri árangri í sorphirðu og flokkun. Því það verður ekki nóg að við gerum vel, hin sveitarfélögin í samlaginu þurfa einnig að gera betur svo fjárfestingin sé til einhverra bóta.

Ég vil taka undir tillögu bæjarfulltrúa Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur á fundi bæjarráðs 11.10 um að Kópavogsbær marki sér stefnu í loftlagsmálum. Þetta skiptir allt máli.

En að öðru. Varðandi stefnumótun hjá Kópavogi þá þurfum við aðeins að velta fyrir okkur hver á að sinna stefnumótun í dag. Hingað til hafa allar nefndir og ráð átt að setja sér stefnur í sínum málum en nú hefur verið ráðinn starfsmaður hjá bænum til að sinna stefnumótun í anda heimsmarkmiða og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvor stefnan á þá að gilda. Þurfum við kannski að endurskoða tilgang og embættisbréf nefnda og ráða?
Við erum einnig að vinna stefnumótun m.t.t vísitölu félagslegra framfara. Þar eigum við mælikvarða sem mælir hvernig okkur gengur að vinna út frá þeirri stefnumótun sem bærinn hefur sett sér. Þessi mælikvarði þarf að vera sýnilegur og aðgengilegur alltaf. Þetta er hagstjórnartæki kjörinna fulltrúa og því nauðsyn að hann sé alltaf aðgengilegur og uppfærður.

Kveðja

Bergljót bæjarfulltrúi

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur mánudaginn 22. október

Mánudaginn 22. október kl. 20 verður bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í Kópavogi. Hann er haldinn í húsakynnum okkar við Hlíðasmára 9. Þar ætlum við að eiga gott samtal um þau málefni sem brenna á okkur og það sem bæjarfulltrúarnir telja að þurfi að ræða fyrir bæjarstjórnarfund sem verður daginn eftir.

Allir félagsmenn eru velkomnir

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Opinn bæjarmálafundur verður haldinn í Híðasmára 9, mánudaginn 8. október kl. 20. Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu reifa þau mál sem eru til umræðu í bæjarstjórn og kalla eftir skoðunum og óskum fundarmanna um hvar þau eigi að beita sér.

Allir velkomnir, stjórnin

Gunnar Gylfason
Opin félagsfundur með Guðmundi Andra og Margréti Tryggvadóttur

Mánudaginn 1.október kl.20:00 í Hlíðarsmára 9, ætla Guðmundur Andri alþingismaður og Margrét Tryggvadóttir varaþingmaður að koma til okkar í Kópavoginn. Margrét ætlar að fjalla um stjórnarskrármálið og hvar það sé statt og Guðmundur Andri ætlar sér að segja frá landsmálunum og því sem er að gerast á Alþingi.

Allir velkomnir, stjórnin.

Gunnar Gylfason
Bæjarmálafundur 24. september

Opinn bæjarmálafundur verður haldinn í Híðasmára 9, mánudaginn 24. september kl. 20. 
Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu reifa þau mál sem eru til umræðu í bæjarstjórn og kalla eftir skoðunum og óskum fundarmanna um hvar þau eigi að beita sér.

Bergljót Kristinsdóttir
Starfið veturinn 2018 - 2019

Stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi hefur skipulagt vetrarstarfið fram að áramótum og hér er dagskráin:

10.sept - Nefndarmannafundur
17.sept - Frí
24.sept - Opin bæjarmálafundur
1.okt - Opin félagsfundur (Logi formaður)
8.okt - Bæjarmálafundur
15.okt - Stjórnarfundir
22.okt - Bæjarmálafundur
29.okt - Frí
5.nóv - Opin fundur (Ræða framtíð öldrunarmála í Kópavogi)
12.nóv - Bæjarmálafundur
19.nóv - Stjórnafundur
26.nóv - Bæjarmálafundur
3.des - Opin fundur (ekki ákveðið)
10.des - Bæjarmálafundur
Jólafrí
10. jan 2019 Opin félagsfundur (málefni ungs fólks)

Við vonumst til að sjá sem flesta taka þátt í bæjarmálaumræðunni. Við þurfum að standa við bakið á bæjarfulltrúunum okkar, þeir þurfa að heyra í okkar fólki og fá umræðu um þau mál sem eru á dagskrá og ekki síst þau mál sem ættu að vera á dagskrá en eru það ekki.

Bergljót Kristinsdóttir
Ræður og bókanir okkar á bæjarstjórnarfundi 26.6.2018

Um málefnasamning sjálfstæðismanna og framsóknar:

Málefnasamnningurinn

Bókun:
Málaefnasamningur sem liggur hér frammi er frekar gamaldags samningur gerður af gamaldags og íhaldssömum flokkum. Mörg atriða sem tiltekin eru í samningnum eru þegar komin af stað, önnur eru á valdi ríkisins að framkvæma. Fátt nýtt, frumlegt eða snjallt er að finna í málefnasamningnum. 

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ræða Bergljót:

Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Helsta verkefni sveitarfélaga í dag er að þjónusta íbúana í samræmi við þeirra þarfir.

Við viljum viðhalda barneiginum, til þess að það verði þarf að tryggja að foreldrar geti gengið að öruggri vistun fyrir börnin þegar fæðingarorlofi lýkur. þannig er það því miður ekki í dag, foreldrar þurfa m.a. að leita í önnur bæjarfélög eftir þessari þjónustu. Mikil nauðsyn að taka þetta skref.

Við  viljum tryggja börnum í grunnskóla öruggt athvarf allt árið til samræmis við þarfir foreldra á viðráðanlegu verði. Vistunar – og íþróttakostnaður barna er ein ástæða langs vinnudags hjá foreldrum. Komum til móts við foreldra í þessu verkefni svo þeir eigi möguleika á að njóta meiri tíma með börnum sínum.

Eldri borgarar finna til mikils óöryggis vegna takmarkaðs framboðs á öruggri vistun þegar þegar þess þarf. Margir sitja heima án nægilegrar þjónustu. Aukning á þjónustu til eldri borgara gengur allt of hægt og þessi hópur stækkar óðfluga.

Ég sé engin merki um öfluga framtíðarsýn hvað þessi  mál varðar í þessum málefnasamningi. Aðeins er verið að lofa að klára það sem þegar er hafið eða í pípunum. Við þurfum greinilega að bíða mun lengur en eitt kjörtímabil til að sjá einhverjar verulegar breytingar á þessari nærþjónustu sem færa okkkur nær sambærilegri þjónustu í nágrannalöndum okkar.

Eg tek undir með bæjarfulltrúa Theódóru S Þorsteinsdóttur um vöntun á stefnumótun til lengri framtíðar. Bæjarfélagið er á þeim tímapunkti í dag að þess er mikil þörf.

Ræða Péturs:

Hér liggur frammi málefnasamningur meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ekki er hægt að segja að um sé að ræða tímamótaplagg. Sumt er sjálfsagt að fara í, annað er þegar búið að ákveða og er fjöldi atriða tiltekin  í málefnasamningnum sem þegar hafa verið ákveðin. Sem dæmi má nefna að í málefnasamningnum er sagt að ljúka eigi við byggingu Kársnesskóla og byggja húsnæði yfir Skólahljómsveitina.  Snjóframleiðsla verði hafin í Bláfjöllum og endurnýjun búnaðar sem einnig er búið að ákveða sem og brú yfir Fossvogsdal.

Nokkrir punktar eru á valdi ríksins en ekki Kópavogs eins og bygging hjúkrunarheimilis við Boðaþing, fjölgun dagvistunarúrræða, leggja Reykjanesbraut í stokk eða göng og svo verkefnið endalausa sem sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið ár eftir ár en það er að ljúka við gerð Arnarnesvegar.

Nokkur atriði í samningnum eru tekin upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar og er það vel og munu bæjarfulltrúar flokksins að sjálfsögðu styðja við þau atriði. Þar má nefna: Sérhæfð úrræði fyrir börn með geðrænan vanda, Snemmtæk íhlutun og skimun, Bætt sálfræðiþjónusta og Efling íslenskukennslu og þjónustu fyrir börn og fjölskyldur af erlendum uppruna. Bæta á starfsumhverfi kennara og starfsfólks í leik og grunnskólum sem er vel og munu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar koma með tillögur þar að lútandi í menntaráð og bæjarstjórn í haust. Svo á að fjölga markvisst félagslegu húsnæði og öðrum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að byggja hagkvæmt húsnæði t.d. í samstarfi við húsnæðissamvinnufélög. Er þetta ánægjuleg þróun og ljóst að þarna hefur dropinn holað steininn því þótt sjálfstæðisflokkurinn og björt framtíð hafi fellt allar tillögur Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í þessum efnum virðast bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa séð ljósið og hugmyndir í þessu efni náð inn í málefnasamninginn.

Nokkur atriði þurfa nánari skýringa við eins og hvað er átt við þegar Endurskoða á rekstrarfyrirkomulag félagslega íbúðakerfisins í Kópavogi. Gott að heyra frá bæjarstjóra að ekki standi til að einkavæða félagslega íbúðakerfið.  

Borgarlínan er hvergi nefnd á nafn en rætt um Þróun forgangsakreina fyrir almenningssamgöngur. Vona ég að ekki sé um stefnubreytingu að ræða þó bæjarfulltrúi Framsóknarflokks hafi verið andvígur Borgarlínu og að Kópavogur vinni að Borgarlínu í samstarfi við önnur sveitarfélög hér eftir sem hingað til.

Að lokum þá er tekið fram undir liðnum eldri borgarar Aukin virkni Öldungaráðs. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst. Öldungaráð fundaði mjög ört eftir að það var stofnað og hélt tvo almenna fundi með eldri borgurum. Ef það á að auka virknina sýnist mér að það þurfi að funda amk einu sinni í viku til að ná markmiðum málefnasamningsins.

Ég vil svo óska bæjarfulltrúum sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks alls hins besta í störfum sínum fyrir bæjarfélagið en jafnframt taka fram að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu veita þeim eðlilegt aðhald.

Ræða Bergljótar um fundargerð Skipulagsráðs

Vegna fundargerðar Skipulagsráðs frá 18.6.2018 liður 13.

Á 30. fundi skipulagsráðs þann 18. 6. 2018 óskaði ég eftir svari við tveimur spurningum: sú fyrri: hverju liði vinnu við endurskoðun deiliskipulags Kópavogsdals sem bæjarráð samþykkti að færi til gerðar fjárhagsáætlunar í mars 2016 og sú seinni: hvenær mætti vænta nýrrar hverfisáætlunar fyrir Kársnes.

Í svörunum kom fram að vinna við deiliskipulag Kópavogsdals hefur ekki hafist tveimur árum síðar og hverfisáætlun fyrir Kársnes er ekki tilbúin þrátt fyrir að blússandi uppbygging sé í gangi á nesinu. Íbúar Kópavogs geta því ekki enn séð hvernig lokaniðurstaða þeirrar uppbygginar mun líta út né haft skoðun á henni fyrr en mögulega allt of seint.

Þetta eru aðeins tvö dæmi um verkefni sem ekki eru unnin innan tímamarka þrátt fyrir að pólitísk forysta hafi samþykkt þau. Af hverju skildi það vera? Umhverfissvið Kópavogs hefur á að skipa öflugu liði en þeim eru skorður settar. Of mörg verkefni á sama tíma þýðir aðeins eitt. Einhverjum þeirra verður ekki sinnt.

Hvað lætur undan í endalausri uppbyggingu? Jú nærtækast er að geyma viðhald til síðari tíma. Allt sem getur beðið bíður. Hvaða áhrif hefur slík verkefnastýring? Sömu viðhaldslistarnir koma frá stofnunum bæjarins ár eftir ár því þeim er ekki sinnt. Að lokum þarf að fara í mjög dýrar aðgerðir til að afstýra niðurrifi ef það er þá hægt. Við höfum í dag dæmi um Kársnesskóla sem verður rifinn á næstu dögum, húsnæði bæjarskrifstofa var orðið svo heilsuspillandi að ekki þótti borga sig að gera við, búningsklefar íþóttahússins í Furugrund eru lokaðir vegna myglu og þannig mætti halda áfram að telja og viðhaldskostnaður eykst í réttu hlutfalli við tímann sem líður án viðhalds við hæfi.

Svona vinnubrögð hafa ekki aðeins áhrif á byggingarnar okkar heldur get ég ekki ímyndað mér að starfsfólk umhverfissviðs sé ánægt með ástandið. Of mikið álag til langs tíma er slítandi og er til marks um slaka stjórnsýslu. Það er ábyrgð kjörinna fulltrúa að tryggja að verkefni séu í samræmi við getu og að álag á starfsfólk bæjarins sé ásættanlegt svo hægt sé að vinna þau verkefni sem þarf að sinna. Við viljum halda í okkar góða starfsfólk og ekki setja það í þá stöðu að bæjarbúar beini spjótum sínum að þeim vegna vanáhalda sem er þó því miður of oft reyndin. Nú kalla ég eftir viðhaldsáætlun fyrir árið 2018 fyrir mannvirki bæjarins sem samþykkt var að setja fram í áætlunargerð síðasta árs.

 

Góð samvinna öllum að þakka

Betri Kópavogur hitti Ásu Richardsdóttur, fráfarandi bæjarfulltrúa okkar og heiðursætishafa Samfylkingarinnar.  Ása gaf ekki kost á sér að nýju fyrir þessar kosningar.

Ása , hvað ætlar þú að fara að gera?

Það sem ég hef verið að gera síðustu 24 ár. Ég hef starfað í leikhúsi og dansi frá 1994 en það ár stofnaði ég Kaffileikhúsið.  Síðustu 8 ár hef ég mest starfað sjálfstætt í norrænum, evrópskum og alþjóðlegum dansverkefnum. Ég dró í land síðustu 4 ár, það var töluvert tímafrekt að vera bæjarfulltrúi en nú ætla ég að þenja seglin og er meðal annars að undirbúa stærstu danshátíð sem haldin hefur verið á Íslandi.  Ég lifi og hrærist í listum, þar er minn staður.

Tímafrekt segirðu – hvað er þetta mikið starf?

Það fer alveg eftir því hvað þú leggur mikið í starfið.  Ég geri það sem ég tek að mér eins vel og ég get, ég set mig inn í málin, leita mér upplýsinga, tala við fólk og undirbý afstöðu mína.  Það hafa ansi margir fimmtudagar runnið upp og ég áttað mig á því að ég hef fátt annað gert en verið bæjarfulltrúi, þá vikuna. Ég myndi segja að þetta sé að lágmarki 50% vinna og fyrir það fáum við í dag 340 þúsund krónur á mánuði. Ég held að allir núverandi bæjarfulltrúar sinni starfinu af kostgæfni og vinni fyrir kaupinu sínu.

Á góðri stundi í sumrínu.jpg

Bíddu var ekki Theódóra í BF Viðreisn að segjast vilja lækka launin – og Miðflokkurinn kallar þetta “ofurlaun” í auglýsingum ?

Jú, það eru ýmsir að slá sig til riddara korter í kosningar, m.a. Theodóra, sem skrifaði undir ráðningasamning bæjarstjóra 2014, samþykkti allar breytingar á kjörum bæjarfulltrúa með atkvæði sínu og þiggur sjálf rúmar 800 þúsund krónur á mánuði sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi auk sem hún fékk um tíma full laun sem alþingismaður að auki. Það er í besta falli hjákátlegt að hlusta á hana sverja af sér launahækkun bæjarfulltrúa, í ljósi hennar eigin sögu.

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Staðreyndir málsins eru þessar.  Þegar við settumst í bæjarstjórn voru bæjarfulltrúalaunin 175 þúsund á mánuði og höfðu ekki hækkað lengi. Starfið var metið 27% af þingfararkaupi.  Fyrri bæjarstjórn hafði skipað nefnd til að laga starfskjör bæjarfulltrúa, en komst ekki að samkomulagi. Við fólum forsætisnefnd að vinna málið og sumarið 2016 var samþykkt tillaga um að hækka starfshlutfall bæjarfulltrúa í 33% af þingfararkaupi. Launin fóru í 251 þúsund á mánuði.  Í nóvember sama ár koma hið fáranlega fyrirbæri kjararáð með 44% sprengjuhækkunina fyrir alþingismenn. Þeir fá nú rúma 1,1 milljón króna á mánuði. Launin okkar hefðu þá átt að hækka í samræmi við það, því samkvæmt samþykktum bæjarins tókum við laun miðað við laun alþingismanna. Við ákváðum, öll sem eitt, að aftengjast þeim launum og miða þess í stað við launavísitölu.  Laun okkar fóru þá í 317 þúsund og eru nú 340 þúsund krónur á mánuði. Ef einhverjum finnst það ofurlaun þá verður sá hinn sami að rökstyðja það, ég er ósammála.

En hvað með laun bæjarstjóra?

Samfylkingin ein flokka, greiddi atkvæði gegn upphaflegum launakjörum bæjarstjóra sumarið 2014. Það gerði varabæjarfulltrúinn Kristín Sævarsdóttir í bæjarráði með svohljóðandi bókun:

 
Fulltrúi Samfylkingarinnar mótmælir háum launakjörum bæjarstjóra, sem er ekki í neinu samræmi við launakjör flestra starfsmanna bæjarins.
 

Laun bæjarstjóra tóku líka breytingum skv. þingfararkaupi og Ármann átti því rétt á 44% hækkun í nóvember 2016, samkvæmt ráðningasamningi.

Við í Samfylkingunni stóðum að því með öðrum bæjarfulltrúum að aftengja okkar laun og bæjarstjóra við kjararáð. Ég stend með þeirri ákvörðun – hinn kosturinn, 46% hækkun og áframhaldandi tenging launa okkar við kjararáð, var miklu verri kostur.  

Okkar skoðun var, er og verður að heildarlaun bæjarstjóra séu of há enda greiddum við atkvæði gegn upphaflegum ráðningasamningi.  Ég heyri ekki betur en að flestir bæjarfulltrúar, þ.m.t. Ármann sjálfur, séu núna sömu skoðunar og vilji finna viðmið sem almenningur getur sætt sig við.   Að vera bæjarfulltrúi og bæjarstjóri er ábyrgðarstarf líkt og mörg önnur störf í samfélaginu.

 

Bæjarfulltrúum hefur verið tíðrætt hversu gott samstarf er í bæjarstjórn og maður fær á tilfinninguna að sumir flokkar hafi reynt að eigna sér heiðurinn af því?

Ertu þá að hugsa um Bjarta  framtíð – sem núna heitir BF Viðreisn?

Já, en það er alls ekki svo, eiginlega síður en svo. Hér skipta allir bæjarfulltrúar máli, hvar í flokki sem þeir standa og í raun er það móðgun við aðra bæjarfulltrúa að halda því fram að gott samstarf sé einum flokki að þakka umfram öðrum.  

Við höfum öll lagt okkur fram um að standa saman að góðum málum. Það er bjargföst trú mín að samstarf kjörinna fulltrúa, þar sem hlustað er á sjónarmið allra, skilar miklu betri árangri fyrir Kópavogsbúa. Um leið er mikilvægt að fylgja sannfæringu sinni og hvika hvergi. Við í Samfylkingunni höfum t.d. barist gegn slæmum ákvörðunum í umhverfismálum og nægir að nefna andspyrnu okkar gegn veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Lyklafellslínu sem dæmi. Stórmál sem ekki sér fyrir endann á.                    

Í skipulagsmálum höfum við staðið með íbúum í Furugrund og Nónhæð og viljað fara allt aðra leið en meirihlutinn varðandi Smáratorg og Dalveg.  En við höfum líka og oftar reynt að fá aðra í lið með okkur, í velferðarmálum, menningarmálum og fleiri málaflokkum og þegar á heildina er litið höfum við náð góðum árangri þrátt fyrir að vera í minnihluta með því að vinna með öðrum og öðlast traust samherja sem og mótherja.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Þér finnst þetta greinilega gefandi og gaman, af hverju ertu að hætta?

Þó ég sé að hætta í bæjarstjórn þýðir það ekki að ég sé að hætta pólitískum afskiptum.  Ég er alin upp á mjög pólitísku heimili og pabbi minn, Richard Björgvinsson heitinn, var oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi í 24 ár.  Ég fór aðra leið, fyrst í Kvennalistann og svo í Samfylkingina þar sem ég hef verið í ýmsum trúnaðar- og forystustörfum í 18 ár. Kannski kem ég aftur, það er aldrei að vita!

Hvað er þér efst í huga daginn fyrir kjördag?

Þakklæti og von um að þeir sem kjörnir verða í bæjarstjórn á laugardaginn hugsi fyrst og síðast um hagsmuni Kópavogsbúa  og þeir starfi saman af heilindum og trúnaði. Okkar hópur hefur verið þéttur á kjörtímabilinu, við Pétur gott teymi og vil ég þakka honum sérstaklega sem og varabæjarfulltrúunum okkar Kristínu og Bergljótu. Frábært fólk sem ég treysti alla leið!

Mig langar líka að þakka núverandi forseta bæjarstjórnar, Margréti Friðriksdóttur, sem hefur í sínum störfum gætt þess að vera forseti bæði meirihluta og minnihluta, sem skiptir miklu máli fyrir gott samstarf innan bæjarstjórnar. 

Svo vona ég að sem flestir nýti atkvæðisrétt sinn, hann er svo dýrmætur!

Andrea Björk
Kosningakaffi og kosningavaka

Á kjördag 26. maí bíður Samfylkingin í Kópavogi til kosningakaffis í Harmraborg 11, austursal Cafe Catalina. Að venju verður standandi veisluborð og frambjóðendur á vappi til að heilsa upp á gesti á milli kl. 14 og 17.

Um kvöldið breytum við um gír og höldum kosningavöku á sama stað frá kl. 21.30. Við fylgjumst saman með úrslitum kosninga og um miðnættið tekur við hörku ball fyrir alla þá sem verða í stuði.

Sjáumst hress

frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Akstur á kjörstað

Kæri kjósandi

Vanti þig far á kjörstað laugadaginn 26. maí eða í Smáralind í utankjörfundaratkvæðagreiðslu getur þú hringt í síma 611-2393 hjá Samfylkingunni í Kópavogi og óskað eftir aðstoð. Við aðsoðum með glöðu geði.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Við gefum taupoka

Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar í Kópavogi er plastpokalaus Kópavogur. Við viljum stefna að því að verslanir í Kópavogi hætti alfarið að nota plastburðarpoka.Til að minna á þetta mikilvæga mál höfum við verið á vappi við verslanir og gefið taupoka til að minna á þetta stefnumál okkar. Viðtakendur hafa verið afar þakklátir enda flottir pokar.

Kjósum nýjan bæjarstjóra í Kópavogi

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi og bæjarstjóraefni leiðir lista Samfylkingarinnar í Kópavogi en hann hefur sterkar tengingar til bæjarins allt í kringum sig.

Hvernig stóð á því að þú fluttir úr Reykjavík í Kópavog?

„Ég flutti í Kópavoginn fyrir rúmum þrjátíu árum til að elta Sigrúnu Jónsdóttir eiginkonu mína en hún er uppalin í Kópavogi og vildi hvergi annars staðar búa, enda með sterkar taugar til bæjarins eins og ég átti fljótlega eftir að komast að.” Sigrún hefur verið virk í pólitík frá háskólaárunum en þegar hún var 23 ára tók hún þátt í að stofna Kvennalistann og hún sat um tíma í bæjarstjórn fyrir Kópavogslistann og síðar Samfylkinguna í Kópavogi. “Ég fetaði svo í hennar fótspor, en Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í og hefur drifið mig áfram í baráttunni þegar það hefur verið á brattann að sækja. Hún kann líka að vinna kosningar eins og við ætlum að gera hér í Kópavogi á laugardaginn.“

Pétur við upplestur ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur vegna félagslegs húsnæðis.jpg
Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Saman eiga Pétur og Sigrún þrjú börn sem hafa öll alist upp í Kópavogi og hafa sterkar rætur til bæjarfélagsins hvert á sínu sviði.  

„Ég er heppinn að eiga þrjú heilbrigð en mjög ólík börn, yngst er Jóna Þórey sem er komin út í pólitík eins og foreldrarnir en hún er oddviti Röskvu í Háskóla Íslands og vann stórsigur í kosningum til Stúdentaráðs í vetur. Elsti sonurinn, Sigurður Hrafn, hefur verið viðloðandi fimleikastarf í Gerplu í 25 ár, fyrst sem iðkandi og svo sem þjálfari og alþjóðlegur dómari. Hann fylgdi svo í fótspor föðursins og er í sambúð með Kópavogskonunni Svanhvíti Sigurðardóttur og saman eiga þau tvíburana Einar Hrafn og Arnar Loga. Þau búa í Kópavoginum og gengu bæði í MK á sínum tíma."

 
Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í.
 

Miðjubarnið er svo afrekshlauparinn Arnar Pétursson, en var Pétur Hrafn lunkinn hlaupari á sínum tíma?

„Ég var sjálfur í fótboltanum lengi vel og spilaði meira að segja sem atvinnumaður á Hornafirði í gamla daga“ segir Pétur og hlær. „Ég verð seint talinn mikill hlaupari en mitt helsta afrek er líklega þegar ég hljóp heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 2005. Þó að tíminn hafi ekki verið sérstakur varð þetta til þess að Arnar fékk alvöru áhuga á að hlaupa maraþon og núna hefur hann sett stefnuna á Ólympíuleikana 2020. Það væri algjör draumur að fjölskyldan myndi fara saman til Tókýó og fylgjast með.”

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

 
Til þess að vera góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi.
 
Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Þetta hljómar eins og mikið íþróttaheimili, er öll fjölskyldan á kafi í íþróttum?  

„Okkur Sigrúnu fannst mikilvægt að senda börnin snemma í íþróttir því þær eru góður undirbúningur fyrir framtíðina. Ekki nóg með að þar læri krakkar ákveðna félagsfærni og öðlist hreyfigreind, heldur hjálpar íþróttaiðkun krökkum að átta sig á því að til þess að verða góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi. Þetta er hugarfar sem ég hef tamið mér og reynt að smita út frá mér og vona ég það að skili sér til bæjarbúa í mínum verkum í bæjarstjórn Kópavogs.”

Það er kominn tími á nýjar áherslur í Kópavogi og ekki síst tími til að fá nýjan bæjarstjóra í Kópavog.

Andrea Björk