Menntun er leið til farsældar.

Góðir leik- og grunnskólar gegna þar lykilhlutverki. Samfylkingin leggur áherslu á að Kópavogsbær búi vel að fjölskyldufólki og að útgjöldum barnafjölskyldna vegna skóla og íþrótta- og tómstundastarfs verði haldið í lágmarki. Heilbrigði og vellíðan barna skal vera í fyrirrúmi. Tryggja verður að sérhvert barn og unglingur geti notið þess sem boðið er upp á í tómstundastarfi, óháð efnahag foreldra.

Skólamál eru viðamesti málaflokkur sveitarfélagsins. Mikilvægt er að vel sé haldið utan um hann og þeim fjármunum sem til hans fara sé útdeilt af sanngirni og með hag barna og unglinga að leiðarljósi.

 

Samfylkingin vill stuðla að því að leikskólar geti tekið við börnum við 12 mánaða aldur og veiti þeim gott atlæti og fjölbreytta menntun í örvandi umhverfi.

 

Tryggja þarf að viðhaldi grunn- og leikskólabygginga sé sinnt og að skólar séu mannaðir fagmenntuðu fólki. Nauðsynlegt er að ráðast í viðhald skólamannvirkja með það í huga að bæta hljóðvist og starfsaðstæður starfsmanna og barna. Við þurfum að mæta kröfum kennara á öllum stigum með betra vinnuumhverfi, hvata til endurmenntunar og ná sátt um launamál.

 

Þjónustum ólíkar þarfir barna.

Í Kópavogi þarf að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu við nemendur með ólíkar þarfir og tryggja að fagfólk starfi innan skólakerfisins í bænum. Auka þarf stuðning við þá nemendur sem á honum þurfa að halda, en jafnframt þarf að sinna með markvissari hætti þeim nemendum sem skara frammúr og börnum af erlendum uppruna. Bjóða þarf upp á heimanámsaðstoð við alla grunnskóla.

Leita skal leiða til að bjóða yngstu árgöngum grunnskólans upp á sérstakt úrræði í samvinnu grunnskóla, dægradvalar, menningarstofnana og íþrótta- og tómstundafélaga í 4 vikur eftir að skóla lýkur á vorin og áður en skóli hefst á haustin.

Stuðlað skal að aukinni þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi m.a. með því að bjóða þeim upp á þriggja mánaða frítt reynslutímabil.

kelly-sikkema-450728-unsplash.jpg
 
igor-starkov-505387-unsplash.jpg

Undirbúum börnin okkar fyrir áskoranir framtíðar.

Rannsóknir sýna að skapandi greinar og hugvitsvinna muni á komandi árum verða ein mikilvægasta þekking sem barn getur búið að. Við viljum stuðla að því að auka áherslu á verk-, tækni- og listgreinar, þroska umhverfisvitund barna og samþætta skapandi greinar við almennt nám. Gera forritun að skyldunámi í grunnskóla.

Einnig viljum við efla nýsköpun og frumkvöðlafræðslu í skólum bæjarins, þannig að við getum undirbúið börnin okkar sem best undir áskoranir stöðugra breytinga og þróunar í tækninýjungum.

 

Á næsta kjörtímabili viljum við:

  • Brúa bilið - Leikskólapláss verði til staðar fyrir börn við 12 mánaða aldur.

  • Stytta vinnutíma leikskólakennara og starfsfólks í leikskólum og bæta starfsaðstæður.

  • Ráðast í viðhald á húsnæði leik- og grunnskóla Kópavogsbæjar.

  • Bæta starfsaðstæður kennara og bæta sérfræðiaðstoð í kennslu.

  • Efla og lengja dægradvöl yfir sumartímann.

  • Tryggja að hér þrífist og dafni öflug verk-, forritunar- og listkennsla í öllum skólum.

  • Hvetja til stofnunar nýsköpunarsmiðja í skólum.