Síðasti bæjarmálafundur fyrir sumarfrí
Bæjarmálafundur4.jpg

Mánudaginn 27 maí kl. 20 verður síðasti bæjarmálafundur Samfylkikngarinnar í Kópavogi fyrir sumarfrí. Við tökum stöðuna með nefndarfólki, förum yfir þau mál sem við höfum lagt fram undanfarið og eigum gott samtal um stjórnmál með félögunum.

Allir að mæta,síðasti séns

Stjórn og bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi

Donata varabæjarfulltrúi fær viðurkenningu
kopurinn_2019.jpg

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í gær, fimmtudaginn 16. maí. Alls bárust tuttugu tilnefningar til menntaráðs og voru veittar fimm viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Donata H. Bukowska kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku og Halldór Hlöðversson forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Kjarnans hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Velkomin Prógramm, sem miðar að því að virkja ungmenni með annað móðurmál en íslensku í frístunda- og félagsstörfum. Verkefnið spannaði nokkra daga sitt hvoru megin við sumarfrí þar sem unglingum úr 7. – 9. bekk voru kynnt starfsemi félagsmiðstöðva og þau frístundatilboð sem þeim býðst í Kópavogi. Lögð var áhersla á félagslega þáttinn, virkni og þátttöku en einnig á menningar- og tungumálanám. Unglingarnir gerðu ýmislegt saman til að kynnast hvort öðru og starfsemi félagsmiðstöðvanna. Þau fóru t.d. í heimsókn á bæjarskrifstofur, fóru í morgunbíó, grilluðu saman, fóru í frisbý golf í Fossvogsdal, sigldu á bátum frá Siglingaklúbbnum, fóru í Lazer-tag og gönguferðir svo fátt eitt sé nefnt. Þetta verkefni skilaði glöðum unglingum sem fóru að taka virkari þátt í starfi félagsmiðstöðvarinnar sinnar.

Við óskum Donötu og Halldóri hjartanlega til hamingju.

Vel heppnað kaffiboð á 1. maí

Degi verkalýðsins var fagnað með kaffihlaðborði í boði Samfylkingarinnar í Kópavogi á Cafe Catalina. Mikil stemming var og fjöldi gesta kom og hlýddi á ræðumenn dagsins og fengu sér veitingar.

Pétur Hrafn oddviti bauð gesti velkomna, Guðmundur Andri þingmaður okkar talaði um nauðsyn þess að halda baráttunni lifandi og Donata Bukowska varabæjarfulltrúi og sérfræðingur í málefnum barna með annað móðurmál í grunnskólum Kópavogs talaði um kjör erlendra verkamanna. Tónlistarfólkið Jónas Orri og Hrafnhildur Magnea (Raven) fluttu fallega tónlist undir borðum. Gestir og tónlistarfólk sungu að lokum saman Maístjörnuna í tilefni dagsins sem var bjartur og fagur.

Við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg og gestum fyrir komuna.

Kveðja

Stjórnin

1. maí kaffi Samfylkingarinnar í Kópavogi
1-mai með texta.jpg

Samfylkingin í Kópavogi bíður til kaffisamsætis í tilefni verkalýðsdagsins 1. maí.

Samsætið verður í austursala Cafe Catalina í Hamraborg 11, Kópavogi frá kl. 14.30 - 17.

Dagskrá

Pétur Hrafn Sigurðsson oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi bíður gesti velkomna
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður okkar talar kl. 15
Donata Bukowska varabæjarfulltrúi talar kl. 15.30 um stöðu erlends verkafólks á Íslandi.
Tónlist í boði Hrafnhildar Magneu (Raven) og Jónasar Orra
Kökuhlaðborð að hætti Samfylkingarinnar

Allir velkomnir

Stjórnin

Ábyrgð sveitarfélaga í loftlagsmálum
AuglýsingSamfo.png

Opinn fundur Samfylkingarfélaganna í Kópavogi og Hafnarfirði um aðsteðjandi loftlagsvanda og ábyrgð nærsamfélagsins.


Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur og umsjónarmaður þáttarins "Hvað höfum við gert" á RUV fjallar um vandann og lausnir og svarar spurningum viðstaddra.

Fundurinn er haldinn í sal Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að Strandgötu 43, mánudaginn 1. apríl kl. 20.


Allir áhugasamir velkomnir

Bæjarmálafundur 25. mars 2019
Bæjarmálafundur3.jpg

Á mánudaginn n.k. munum við taka umræðu um þau málefni sem minnihlutinn hefur í sameiningu lagt áherslu á síðustu mánuði og segja frá stöðu þeirra. Við hlustum á nefndarfólkið okkar og fáum veganesti fyrir bæjarstjórnarfund á þriðjudeginum 26. mars.

Bæjarfulltrúarnir Pétur og Bergljót

í samstarfi við stjórn félagsins

Allir félagsmenn eru velkomnir og einnig þeir sem áhuga hafa á pólitískri umræðu í Kópavogi

Bæjarmálafundur 11. mars 2019
Bæjarmálafundur7.jpg

Kröftugar pólitískar umræður um þau mál sem eru að gerjast í bænum. Hugmyndir að málefnum sem við ættum að beita okkur fyrir og annað sem liggur fundarmönnum á hjarta.
Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum.

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Aðalfundur Samfylkingarinnar í Kópavogi 4. mars 2019
Aðalfundur.jpg

Aðalfundur Samfylkingarinnar verður haldinn í Hlíðasmára 9 kl. 20 þann 4. mars 2019.

Dagskrá aðalfundar:

1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar og nefnda fyrir liðið starfsár eftir því sem við á
3. Áritaðir reikningar fyrra árs lagðir fram til umræðu og samþykktar
4. Breytingar á samþykktum
5. Kjör stjórnar
6. Kjör félagslegra skoðunarmanna reikninga
7. Kjör uppstillinganefndar
8. Kjör í nefndir og ráð á vegum félagsins
9. Önnur mál.

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 25. febrúar 2019
fundurb.jpg

Á bæjarmálafundum Samfylkingarinnar í Kópavogi ræðum við þau pólitísku mál sem eru í gangi á hverjum tíma og bæjarfulltrúar fara yfir þau málefni sem liggja fyrir bæjarstjórnarfundi daginn eftir.
Þetta er vettvangur fyrir alla sem vilja taka hið pólitíska samtal.

Vertu velkomin/n á bæjarmálafund annan og fjórða mánudag í mánuði kl. 20 í Hlíðasmára 9.

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 11. febrúar 2019

Mánudaginn 11. febrúar kl. 20 verður bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í Kópavogi. Þar ætlum við að eiga gott samtal um þau málefni sem brenna á okkur og þau atriði sem bæjarfulltrúarnir telja mikilvægt að ræða fyrir bæjarstjórnarfund sem verður daginn eftir.

Allir félagsmenn velkomnir
Stjórnin og bæjarfulltrúar

Jón Magnús Guðjónsson
Staðan í kjaramálunum - Flosi Eiríksson
Flosi.jpg

Samfylkingin í Kópavogi fær Flosa Eiríksson framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins í heimsókn mánudaginn 4. febrúar kl. 20 í Hlíðasmára 9 í Kópavogi.

Flosi ætlar að segja okkur allt um baráttuna í dag í kjaraviðræðunum og þær breytingar sem eru í loftinu.

Allir velkomnir - takið með ykkur gesti

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 21 janúar 2019
Bæjarmálafundur6.jpg

Á bæjarmálafundum Samfylkingarinnar í Kópavogi ræðum við þau pólitísku mál sem eru í gangi á hverjum tíma og bæjarfulltrúar fara yfir þau málefni sem liggja fyrir bæjarstjórnarfundi daginn eftir.
Þetta er vettvangur fyrir alla sem vilja taka hið pólitíska samtal.

Vertu velkomin/n á bæjarmálafund annan og fjórða mánudag í mánuði kl. 20 í Hlíðasmára 9.

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 7. janúar 2019
Bæjarmálafundur3.jpg

Mánudagskvöldið 7. janúar kl. 20 verður haldinn fyrsti bæjarmálafundur ársins.

Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu fara yfir sameiginlegar tillögur minnihlutans að verkefnum ásamt því að gera grein fyrir aðalatriðum sem liggja fyrir næsta bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 8. janúar.

Allir að mæta í Hlíðasmára 9 og taka þátt í umræðunni.

Við þurfum á ykkur að halda

Bestu kveðjur

Pétur Hrafn og Bergljót

Bergljót Kristinsdóttir
Logi kemur í heimsókn
Logi 3 des 18.png

Mánudaginn 3.desember kl. 20 mun Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar koma í heimsókn til okkar í Hlíðasmárann og segja okkur frá því hvað þingflokkurinn er að aðhafast í þjóðmálunum. Vonandi lumar hann á einhverjum skemmtisögum úr þinginu til að krydda tilveruna.

Allir að mæta. Við bjóðum upp á jólahressingu og alles í tilefni aðventunnar.

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarstjórnarfundur 13.11.2018
bæjarstjórn.jpg

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fóru í pontu og reifuðu ýmis mál á síðasta bæjarstjórnarfundi. Dagskrármál var fyrri umræða um fjárhagsáætlun Kópavogs sem tók sinn skerf. Fjárhagsáætlun var unnin í samvinnu allra bæjarfulltrúa í fjórða sinn, þannig teljum við að okkar mál nái frekar framgangi.

Hér eru þau mál sem Pétur reifaði:

Fjárhagsáætlunin:
Mörg jákvæð atriði í fjárhagsáætluninni. Rekstrarumhverfi hefur verið jákvætt fyrir sveitafélögin um land allt og er Kópavogur þar ekki undanskilinn.

Nefna má aukin sálfræðiþjónusta í grunnskólum um 40 klst. á viku. Snemmtæk íhlutun í leikskólum
Aukinn stuðningur við börn með sérþarfir. Hækkun til málaflokks fatlaðra sem og til heilsueflingar starfsmanna bæjarins.

Menntamál:
Bæjarfulltrúar samfylkingarinnar lögðu áherslu á að þau börn sem eru með annað móðurmál en íslensku fengju fleiri kennslustundir en nú er og því fylgir auðvitað kostnaður. Samþykkt var sem fyrsta skref að kaupa mælitæki til að skoða málið í Kópavogi og er það fyrsta skrefið, en margir sérfræðingar hafa talið að mikið brottfall nemenda af erlendu bergi brotnu úr grunn- og menntaskólum megi rekja til slakrar íslenskukunnáttu. Úr því er brýnt að bæta.

Húsnæðismál:
200 milljónir fara til kaupa á félagslegu húsnæði. Þessi tala hefur verið óbreytt undanfarin 4 ár, en vonandi þessi tala margfaldast ef samningar nást við ríki um uppbyggingu á félagslegu húsnæði og leiguhúsnæði. Okkar 200 milljónir eru 12% af upphæðinni og ef ríkið kemur með 18% og aðrir aðilar  með afganginn eða 70% erum við að tala um byggingu eða kaup á húsnæði fyrir 1.5 milljarð króna í Kópavogi. Leggja verður áherslu á að ná samningum.

Fasteignaskattur:
Fasteignaskattur lækkar 0.23 í 0.22 sem er 4.8% en tekjur hækka um 6.7% sem skýrist að stærstum hluta af því að fasteignamat í Kóp hefur hækkað verulega. Skattalækkun eða skattahækkun? Skattprósentan lækkar en hver íbúðareigandi greiðir fleiri krónur í fasteignasatt á árinu 2019 en hann gerði á árinu 2018.  Klassísk umræða.
Vatnsskattur og holræsagjald lækkar, enda lögbundið að Kópavogur má ekki græða á vatnsveitu og fráveitu og staða veitufyrirtækjanna er þannig að Kópavogur verður að lækka gjöldin.

Stjórnsýslan:
Laun og launatengd gjöld í hlutfalli við rekstrartekjur hafa vaxið úr 46,2% á árinu 2012 yfir í 55.8% í áætlun 2018 og verður 55.3% í áætluninni fyrir næsta ár.
Sama má segja um annan rekstrarkostnað í hlutfalli við rekstrartekjur sem hefur lækkað úr 32% á árinu 2012  í 29% árið 2017 en nú i áætlun 2019 fer hann upp í 32,4%.

Afborganir lána:
Kópavogsbær hefur fengið tekjur af sölu lóða, sem hafa meðal annars runnið til afborgana á lánum og til framkvæmda og þannig gert bænum kleyft að gera hvoru tveggja án þess að auka á lántökur á undanförnum árum. Nú er útlit fyrir á næstu árum að þessar tekjur af lóðasölu minnki og því mikilvæt að huga að rekstrarkostnaði og gæta þess að hann fari ekki úr böndum, hvort heldur sem um er að ræða laun og launatengd gjöld eða annan rekstrarkostnað. Því það verður reksturinn sem verður að standa undir greiðslum vegna afborgana og framkvæmda á næstu árum án viðbótartekna af lóðasölu.

Ramminn:
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir rúmum tæpum 30 milljörðum í skattekjur. Stærstur hluti áætlunar er í ramma sem settur var við fjárhagsáætlunargerð árið 2010. Síðan hefur ramminn ekki verið endurskoðaður af kjörnum fulltrúum. Ég tel að í fjárhagsáætlunargerð á næsta ári sé kominn tími til að kjörnir fulltrúar kafi ofan í rammann og fari þannig mun dýpra í fjárhagsáætlunargerðina heldur en gert hefur verið undanfarin ár.

Húsnæðisfélagið Bjarg:
Björn traustason mætti á fund bæjarráðs og kynnti hugmyndir Bjargs sem er íbúðafélag í eigu ASÍ og BSRB og hefur það að markmiði að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði sem er ekki hagnaðardrifið og býður tveim lægstu tekjufimmtungunum upp á gott en ódýrt leiguhúsnæði. Bjarg hefur óskað eftir samstarfi við Kópavog, Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa flutt tillögu um slíkt samstarf á síðasta kjörtímabili. Við styðjum slíkt samstarf og ég beini því til bæjarstjóra og til formanns bæjarráðs bæjarfulltrúa Birkis Jóns Jónssonar og til bæjarfulltrúa meirihlutans um að tryggja slíkt samstarf á næstu vikum og mánuðum. Bjarg er með vilyrði fyrir lóðum fyrir 1.000 íbúðum í Reykjavík og 100 í Kópavogi. Ekkert í Kópavogi. Mikilvægt að tryggja fjölbreytni í húsnæðismálum í Kópavogi. Bjarg er ein leiðin í þeim efnum.

Óhapp hjá Málningu hf.:
Í fundargerð heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópvogs kemur fram bréf til Málningar vegna mengunar í Kópavogslæknum. Undirritaður vakti athygli  á málinu í bæjarráði og ánægjulegt að bæjarráð bókaði samhljóða Bókun: 
Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum vegna mengunartilvika sem upp eru að koma í Kópavogslæk. Bæjarráð óskar eftir að Heilbrigðiseftirlitið taki málið til nánari skoðunar.

Plastpokanotkun:
Undirritaður lagði fram tillögu um plastpokanotkun hjá  Kópavogsbæ í Bæjarráði frá 8.nóvember og að leitað verði leiða til að draga úr henni. Tillögunni var vísað til gerðar umhverfisáætlunar og leit bæjarráð jákvætt á málið. Bæjarfulltrúi VG, Margrét Júlía Rafnsdóttir kom með tillögu um plastnotkun á síðasta kjörtímabili. Þeirri tillögu var vísað til umhverfissviðs. Síðan gerðist ekkert, ekkert og það þrátt fyrir ítrekanir bæjarfulltrúans þáverandi. Ég mun fylgja þessari tillögu eftir og vonandi verða það ekki örlög hennar að týnast einhverstaðar í kerfinu. Vonandi verður meðgangan ekki eins löng og stofunun Öldungaráðs.

Og hér eru þau mál sem Bergljót snerti á:

Fjárhagsáætlun:
Ég óska eftir að koma með breytingatillögu að fjárhagsáætlun. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegast að hún hefði komið fram fyrr í ferlinu en því miður gafst ekki ráðrúm til þess.

Mig langar að fara þess á leit að bæjarsjóður standi straum af a.m.k. einni rútuferð á árgang í grunnskólum bæjarins á ári sem er eyrnamerkt listviðburði utan skólans. Erfiðleikar með far til og frá skóla hafa staðið því fyrir þrifum að grunnskólabörn fái að njóta listviðburða á skólatíma. Kennarar hafa gefist upp á að reyna að koma heilum árgangi til og frá skóla með strætó. Einungin má fara með 20 börn í einu í hvern vagn og ekki er nægilega margt starfsfólk til að halda utan um stærri hópa fyrir nú utan þann tíma sem slíkt ferðalag tekur. Með þessari einu aðgerð gefum við börnum bæjarins mjög aukna möguleika á að fá að kynna sér listviðburði og menningarhús af eigin raun.

Ég óska eftir að þessi þáttur verði kostnaðargreindur þannig að hægt sé að áætla fyrir honum fyrir næsta skólaár og málið tekið fyrir við seinni umræðu fjárhagsáætlunar.

Sorpa:
Í rekstraráætlun Sorpu 2019 – 2023 sem kynnt var á fundi stjórnar Sorpu 24.10 s.l. kemur fram að magnaukning á mótteknu sorpi frá árinu 2010 til 2017 sé 62%. 62% á 8 árum. Það er töluvert. Árið 2017 náðum við aftur að safna sama magni af rusli og hið fræga ár 2008. Þessi sorphirðutala mun halda áfram að hækka í nánustu framtíð með sama hraða nema við gerum eitthvað í málunum.
Nú biðlar Sorpa til sveitarfélaganna um að fara í átak með íbúum og fyrirtækjum til að flokka sorp betur. Þannig megi endurvinna stærri hluta sorps sem er ódýrari meðhöndlun og umhvefisvænni en urðun.  Hér eigum við í Kópavogi að taka frumkvæði og fara af krafti í vitundarvakningu í okkar bæjarfélagi og jafnvel beita kvöðum að hluta. Við verðum að taka á þessu máli. Því miður eru enn allt of margir sem ekki leggja sitt lóð á þessa vogarskál. Flokkun sorps er eitthvað sem við getum gert. Við getum ekki fækkað eldgosum eða ákveðið að fækka flug- og skipaferðum til að minnka kolefnisspor okkar og þannig að ná markmiðum Parísarsáttmálans. En þetta getum við hvert og eitt lagt til. Bætt sorphirðu og breytt neysluhegðun okkar til að minnka sorp. Bæjarfélagið þarf að vera í fararbroddi og draga þennan vagn.

Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir Sorpu sér þess ekki stað í rekstrarniðurstöðu vegna mikillar magnaukningar á sorpi. Aukin sorphirða þýðir aukin fjárútlát hjá bæjarbúum þar sem gert er ráð fyrir að sorphirðugjöld standi alfarið undir hirðingu og förgun. Við getum notað það sem hvatningu til bæjarbúa. Gjöld munu halda áfram að hækka nema spyrnt sé við fótum.

Meðal þess sem Sorpa bendir á sem hagræðingu er að fækka þurfi og stækka endurvinnslustöðvar sem eru nú 6 talsins á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega eru nefndar stöðvarnar við Dalveg og Jaðarsel sem eru á of þröngu svæði. Þetta eigum við að skoða sem tækifæri og færa núverandi stöð við Dalveg yfir Reykjanesbrautina á svæði á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs í samvinnu við Reykjavík. Þannig mætti mögulega fækka um eina stöð og ná fram brýnni hagræðingu.

Það er í mörg horn að líta ef við ætlum að standa við stóru orðin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars mætti bæta undirmarkmiði 13.3 inn á stefnumótunarlistann okkar í Kópavogi. Þar er fjallað um að auka menntun til að vekja fólk til meðvitunar um hvernig mannauður og stofnanir geti haft áhrif og brugðist við loftlagsbreytingum. Allt sem við getum gert telur til framtíðar.

Vona að Bæjarfulltrúi Birkir Jón Jónsson formaður stjórnar Sorpu bregðist fljótt við ósk minni um vinnufund um sorphirðu og förgun ásamt sérfræðingum á því sviði svo við kjörnir fulltrúar getum stillt saman strengi okkar í þessum mikilvæga málaflokki.

Óhapp hjá Málningu hf.:
Og talandi um heimsmarkmiðin langar mig að minnast á óhapp sem varð hjá Málningu hf. um daginn og olli því að Kópavogslækurinn tók á sig hvítan lit. Það er löngu tímabært að hætta að veita frárennsli í lækinn og vernda það viðkvæma vistkerfi sem þar er. Yfirborðsfrárennsli á að fara í síu og síðan beint á haf út. Þannig getum við stuðlað að bætingu samkvæmt markmiði 15 um verndun vistkerfa í heimsmarkmiðunum. Væri ekki ráð að nýta þann rekstrarafgang sem nú fæst frá fráveitu Kópavogs til að fara í það verkefni?

Húsnæðismál:
Andsvar við ræðu bæjarstjóra: Þótt 85% svarenda í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs vilji kaupa húsnæði í dag má ekki skilja það þannig fólk í þeim flokki mundi ekki alveg eins vilja leigja ef leigumarkaðurinn væri með öðrum formerkjum. Leigufélög í Danmörku eru 200 ára gamalt húsnæðisform sem hefur staðið af sér allar kreppur og fólk vill búa í slíku kerfi, m.a. vegna þess að fólk í dag vill ekki þurfa hafa áhyggjur af viðhaldi húsnæðis.

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur 12.11.2018
fundur.jpg

Mánudaginn 12. nóvember kl. 20 verður bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í Kópavogi. Hann er haldinn í húsakynnum okkar við Hlíðasmára 9. Þar ætlum við að eiga gott samtal um þau málefni sem brenna á okkur og það sem bæjarfulltrúarnir telja að þurfi að ræða fyrir bæjarstjórnarfund sem verður daginn eftir.

Allir félagsmenn eru velkomnir

Stjórnin og bæjarfulltrúar

Allt um öldrunarmál í Kópavogi

Anna Klara deildarstjóri öldrunarmála hjá Kópavogsbæ ætlar að fræða okkur um stöðuna í málaflokknum í dag, þjónustu í boði, samþættingu heimaþjónustu og - hjúkrunar, heilsueflandi hreyfingu fyrir eldri borgara, hvernig leysa á biðlistavandamálin og svo kemur hún með heitar lummur um málefni aldraðra beint frá Danmörku.

Fundurinn er haldinn í Hlíðasmára 9, Kópavogi, mánudaginn 5. nóvember kl. 20.

allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarstjórnarfundur 23. október 2018

Við Elvar Páll Sigurðsson sátum bæjarstjórnarfund í dag og sáum til þess að umræður sköpuðust um húsnæðis- og sorpmál. Þetta var annars stysti bæjarstjórnarfundur sem ég hef setið, tæpir 2 tímar. Við komum þó í gegn að það verður haldinn vinnufundur um sorpmál. 
Hér eru ræður okkar og mynd af Elvari í pontu í fyrsta sinn.

Ræða Elvars:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar,

Mig langar að tala um fundargerð bæjarráðs frá 11. október þar sem Bjarg íbúðafélag óskaði eftir viðræðum við Kópavogsbæ varðandi samstarf um uppbyggingu almennra íbúða. Ég fagna því og vona að Kópavogsbær taki þessari ósk alvarlega. Bjarg íbúðafélag er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Þetta gæti komið sér vel fyrir meðal annars ungt fólk í bænum, ungt fólk sem er fast heima hjá foreldrum sínum, kemst ekki á almenna leigumarkaðinn og getur ekki keypt sér íbúð. Að mínu mati á Kópavogsbær að horfa út fyrir boxið í húsnæðismálum og þar kemur samstarf við Bjarg inn. Einnig tel ég mjög brýnt að Kópavogsbær skoði með fullri alvöru að byggja stúdentaíbúðir í bænum.

Í velferðarráði kom svo fram eftir fyrirspurn frá Samfylkingunni að það eru 126 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það þarf að vinna á þennan biðlista með einhverjum hætti. 63% af biðlistanum er fólk undir 40 ára, aðeins einn er yfir 67 ára. 51% eru einstaklingar án barna og 38,1% eru einstæðir foreldrar með 1 barn. Stærsti hópurinn bíður eftir 2ja herbergja- eða stúdíóíbúð. Þar er mesta þörfin og þar er lítið framboð á markaði og verð hátt. Það er einnig áberandi að ungt folk er í meirihluta þeirra sem eru á biðlista og því brýnt að bregðast við.

Ræða Bergljótar:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Í Fundargerð Sorpu frá 3.10 s.l. kemur fram að erfiðlega gengur að semja við Sorpstöð Suðurlands um nýjan urðunarstað á Suðurlandi sem þó hefur verið í bígerð í nokkur ár. Urðun á Álfsnesi á að leggjast af mjög fljótlega og því nauðsynlegt að finna nýjan stað.
En enginn vill sjá um urðun sorps í dag. Við verðum að gera ráð fyrir takmörkun á urðunarstöðum til framtíðar. M.a í ljósi þess hefur byggðasamlagið Sorpa fengið heimid til að taka lán til að starta framkvæmdum við jarð- og gasgerðarstöð sem á að minnka töluvert það magn sem í dag er urðað. Til þess að það megi gerast þarf sorphirða að breytast. Samkvæmt sérfræðiáliti er ekki hægt að setja innihald almennu sorptunnunnar í Jarð- og gasgerðarstöðina þó svo vonir standi til þess. Samkvæmt mínum upplýsingum verður flokkun almenns sorps á móttökustað aldrei nógu góð þannig að tryggja megi að sá jarðvegur sem framleiða á verði boðlegur. Það þýðir að miðað við núverandi sorphirðu leggst lítið til jarðgerðarstöðvarinnar. 
Enn eru mörg skref óstigin í sorphirðu og samkvæmt tölum Eurostat frá 2016 stendur Ísland sig afar illa m.v. aðrar Evrópuþjóðir. Sem dæmi er Ísland í 5 neðsta sæti í endurvinnslu plasts í Evrópu með aðeins 50% endurvinnslu og Ísland er í 4 neðsta sæti ef við mælum plastúrgang per íbúa sem er um 45 kg á ári.

Á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar þann 4. september s.l. var tekin fyrir tillaga um kröfu um flokkun sorps á byggingarstöðum við úthlutun lóða. Þetta er fín tillaga og er eitt skref í rétta átt. Við þurfum hins vegar að ganga lengra. Það er ekki nóg að heimilin flokki, fyrirtækin þurfa einnig að flokka og við þurfum að kenna einstaklingum að flokka í mun meiri mæli en nú er gert. Við þurfum að koma af stað vitundarvakningu um flokkun og plastnotkun. Það gerum við í samvinnu við fyrirtækin og heimilin í bænum. 
Vegna þessa tel ég nauðsynlegt að bæjarstjórn Kópavogs haldi vinnufund með sérfræðingum um sorphirðu og þá möguleika sem við höfum til að þessi mikla fjárfesting sem við ætlum að binda í Jarð- og gasgerðarstöðinni skili sér til okkar. Jafnframt getum við verið í fararbroddi innan byggðasamlagsins ef við náum betri árangri í sorphirðu og flokkun. Því það verður ekki nóg að við gerum vel, hin sveitarfélögin í samlaginu þurfa einnig að gera betur svo fjárfestingin sé til einhverra bóta.

Ég vil taka undir tillögu bæjarfulltrúa Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur á fundi bæjarráðs 11.10 um að Kópavogsbær marki sér stefnu í loftlagsmálum. Þetta skiptir allt máli.

En að öðru. Varðandi stefnumótun hjá Kópavogi þá þurfum við aðeins að velta fyrir okkur hver á að sinna stefnumótun í dag. Hingað til hafa allar nefndir og ráð átt að setja sér stefnur í sínum málum en nú hefur verið ráðinn starfsmaður hjá bænum til að sinna stefnumótun í anda heimsmarkmiða og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvor stefnan á þá að gilda. Þurfum við kannski að endurskoða tilgang og embættisbréf nefnda og ráða?
Við erum einnig að vinna stefnumótun m.t.t vísitölu félagslegra framfara. Þar eigum við mælikvarða sem mælir hvernig okkur gengur að vinna út frá þeirri stefnumótun sem bærinn hefur sett sér. Þessi mælikvarði þarf að vera sýnilegur og aðgengilegur alltaf. Þetta er hagstjórnartæki kjörinna fulltrúa og því nauðsyn að hann sé alltaf aðgengilegur og uppfærður.

Kveðja

Bergljót bæjarfulltrúi

Bergljót Kristinsdóttir