Leigjendur, námsmenn og eldri borgarar mega ekki sitja eftir.

Mikilvægt er að tryggja fjölbreytt framboð húsnæðis í Kópavogi. Samfylkingin vill eyrnamerkja 20-25% lóðaúthlutanna á landi sem Kópavogur á til óhagnaðardrifinna félaga. Við viljum tryggja að ungt fólk þurfi ekki að flytja úr Kópavogi til að koma sér upp heimili, heldur að nægilegt framboð verði af litlu, hagkvæmu og þar með ódýru húsnæði til kaups eða leigu. Kópavogsbær á að sjá til þess að nægilegt framboð sé af húsnæði fyrir námsmenn, leigjendur, eldri borgara og þá sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda.

Kópavogsbær á að leita samstarfs við byggingafélög verkalýðshreyfingarinnar eins og Bjarg, sem er í eigu ASÍ, og BSRB um uppbyggingu á nýju húsnæðiskerfi fyrir einstaklinga sem tilheyra lægstu tekjuhópunum. Einnig á bærinn að leita samstarfs við húsnæðissamvinnufélög við að byggja upp hagstæðan leigumarkað eins og gert hefur verið fyrir námsmenn til margra ára. Óásættanlegt er að engin námsmannaíbúð sé til staðar í Kópavogi og þurfa þeir Kópavogsbúar að flytja til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar til að fá húsnæði. Horfa má til Kársness með staðsetningu á námsmannaíbúðum sem og Fannborgarreits í miðbæ Kópavogs. Með þessu móti getur Kópavogsbær skapað úrræði fyrir ungt fólk, aldraða og tekjulága þannig að þeir geti leigt öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Skref okkar að betri húsnæðismarkaði:

  • 20-25% lóðaúthlutanna á lóðum bæjarins verði til óhagnaðardrifinna verkefna.

  • Samvinna við húsnæðissamvinnufélög á borð við Bjarg.

  • Gæta að framboði á byggingarlóðum þannig að byggðar verði íbúðir af fjölbreyttri stærð og að nægt framboð verði af húsnæði í bænum.

  • Tryggja framboð af litlu hagkvæmu íbúðarhúsnæði fyrir ungt fólk til kaups eða leigu.

  • Námsmannaíbúðir verði byggðar á Kársnesi og á Fannborgarreit í samvinnu við húsnæðisfélög stúdenta.

  • Efla félagslega íbúðakerfið.

IMG_8680.jpg