Samfylkingin vill ábyrga fjármálastjórn

Nýtt framtíðar- og þróunarsvið

Samfylkingin er ábyrgur stjórnmálaflokkur og mun sýna ábyrgð og ráðdeild í rekstri Kópavogsbæjar. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sýnt það að þeim eru mislagðar hendur í meðhöndlun almannagæða. Einkavæðing bankanna upp úr aldamótum og nú síðast misheppnuð sala á hlut Íslandsbanka eru augljós dæmi. Úthlutun samfélagslegra gæða Kópavogsbúa sem snýr að afhendingu skipulagsvaldsins til þóknanlegra verktaka er sams konar pólitík sem Samfylkingin vill breyta. Við leggjum áherslu á almannahag í stað sérhagsmuna.

 

Fjármál sveitarfélaga eru þess eðlis að miklu máli skiptir hvernig hugsað er til langs tíma. Nýtt framtíðar- og þróunarsvið er verkfæri sem Samfylkingin leggur til að móti þessa sýn í samvinnu við bæjarstjórn. Núverandi meirihluta eru afar mislagðar hendur í úthlutun takmarkaðra gæða til verktaka og því viljum við breyta. Við viljum leita nýrra leiða í fjármögnun á sviði grænna innviðafjárfestinga sem sparar Kópavogi mikla fjármuni. Samfylkingin vill ráðdeild í rekstri og að skuldir Kópavogsbæjar lækki.

 

Við viljum sjá nýtt framtíðar- og þróunarsvið í stjórnkerfi Kópavogsbæjar sem hafi það hlutverk að horfa til grundvallarspurningarinnar: „Hvernig bær viljum við að Kópavogur verði eftir 5,10 og 30 ár?“ Þar verði sett undir málefnasviðið markaðs- og ímyndarmál Kópavogs, nýsköpunarverkefni, mótun klasastefnu, menningarmál að hluta og fleira. Þá muni hluti af þeim verkefnum sem fjalla um skipulagsmál flytjast frá umhverfissviði á þetta svið.

Skuldastaða Kópavogsbæjar er núna slæm. Skuldahlutfall þarf að lækka. Í rekstri bæjarfélagsins þarf að sýna ráðdeild. Leita þarf leiða til að lækka fjármagnskostnað en þar eru ýmsir möguleikar. Kópavogsbær þarf að vera opinn fyrir öðrum leiðum til fjármögnunar innviðafjárfestinga á sviði umhverfisvænna og grænna samfélagsverkefna.

Kópavogsbær þarf að sýna frumkvæði í að leita leiða til að lækka kostnað og móta sýn á þau verkefni sem brýnast er að leysa með sameiginlegu átaki sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ef vel tekst til sparast miklir fjármunir. Má þar helst nefna skipulagsmál, umhverfismál og húsnæðismál. Í Kópavogi búa yfir 10% þjóðarinnar og bæjaryfirvöld bera mikla ábyrgð í þessum efnum.