Fjölmenning í fyrirrúmi.

Kópavogsbúar af erlendum uppruna auðga samfélag okkar og eru velkomnir í bæinn. Nú eru um 10% bæjarbúa af erlendum uppruna og nauðsynlegt að bærinn taki tillit til þess í stefnumótun og störfum sínum. Börn með annað móðurmál en íslensku eiga að hafa sömu tækifæri og önnur börn í bænum til að vera virkir þátttakendur í íþróttum og tómstundastarfi, án allra hindrana. Lykilatriði er að er að þau fái tækifæri til að læra íslensku. Samfylkingin vill fjölga kennslustundum sem börn með annað móðurmál en íslensku fá til að læra íslensku í leik- og grunnskólum og auka menningarfærni þeirra.

Nauðsynlegt er að fjallað sé um málefni erlendra ríkisborgara í bænum af fagmennsku og að sjónarmið þeirra hafi greiðan aðgang að stefnumótun í bænum. Því viljum við koma á fót fjölmenningarráði sem fjallaði um þessi málefni, móttöku, aðlögun og aðstæður þessa hóps hér í bæ. Gæta þarf sérstaklega að því að upplýsingar frá bænum séu þýddar á erlend tungumál með tilliti til þess hvert þjóðerni nýrra Kópavogsbúa er.

Með kynningarbæklingi má koma mikilvægum upplýsingum til skila sem myndi auðvelda erlendum ríkisborgurum að átta sig á stjórnkerfi og þjónustu bæjarins. Kynna þarf nýjum borgurum réttindi sín og skyldur í íslensku samfélagi þannig að þau þekki stöðu sína og geti jafnframt lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Styðjum bæjarbúa af erlendum uppruna og stuðlum að blómlegri fjölmenningu.

  • Með því að stofna fjölmenningarráð.

  • Efla íslenskukennslu í leik- og grunnskólum til muna.

  • Auka fræðslu og upplýsingagjöf til foreldra af erlendum uppruna

  • Vefsíða og íbúagátt Kópavogs verði aðgengileg á nokkrum tungumálum.

  • Stofnuð verði upplýsingamiðstöð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fyrir íbúa af erlendum uppruna.

  • Starfstengd íslenskunámskeið fyrir starfsmenn bæjarins sem eru af erlendum uppruna.