Íþróttabærinn Kópavogur

Kópavogsbær er íþróttabær og hafa íþróttafélögin í Kópavogi verið í fremstu röð, hvert í sinni íþróttagrein. Mikið hefur verið byggt af íþróttamannvirkjum en viðhaldi þeirra er ábótavant. Samfylkingin vill tryggja fjármagn til að sinna eðlilegu viðhaldi á íþróttamannvirkjum þannig að ástand þeirra sé alltaf til fyrirmyndar. Enn fremur vill Samfylkingin ljúka við uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í bænum svo sem í Kórnum þar sem brýnt er að ljúka við áhorfendaaðstöðu í íþróttasalnum og klára gervigrasvöll utandyra.

 

Samfylkingin vill hækka íþrótta- og tómstundastyrk til barna og unglinga í Kópavogi í 80.000 kr., enda mikilvægt að allir eigi kost á að stunda íþróttir, tónlistarnám eða aðrar tómstundir.

 

Stór hluti ungmenna hættir íþróttaiðkun eftir grunnskóla. Til að tryggja áframhaldandi lýðheilsu þeirra viljum við bjóða þeim frítt í sund til 18 ára aldurs.

Íþróttir og hreyfing fyrir eldri borgara er ekki síður mikilvæg en fyrir yngri kynslóðina, því á bærinn að skapa eldri borgurum aðstöðu til að stunda öflugt íþrótta- og tómstundastarf sem og heilsurækt í íþróttamannvirkjum bæjarins. Kynna þarf vel fyrir eldra fólki hvaða möguleikar eru í boði og bjóða uppá akstur í íþróttamannvirki á þeim tíma dags sem þeim hentar.

Samfylkingin vill endurskoða og bæta rekstrar- og þjónustusamninga við íþrótta- og tómstundafélög í Kópavogi til að gera þau betur í stakk búin til að veita Kópavogsbúum úrvals þjónustu, hvort sem um er að ræða almennings- eða afreksíþróttir og stuðla þannig að bættri heilsu og líðan fólks á öllum aldri. Efla þarf starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga eigi þau að geta unnið í aukinni samvinnu við dægradvöl skólanna.

Kópavogsbær getur lagt sitt af mörkum til að efla samstarf bæjarins og íþróttahreyfingarinnar í bænum með því að stuðla að stofnun íþróttabandalags í Kópavogi þar sem íþróttahreyfingin fær samstarfsvettvang til að koma sínum málum á framfæri og getur unnið sameiginlega að heildstæðri íþróttastefnu í Kópavogi.

Til þess að halda við sterkri stöðu Kópavogs í þessum málaflokki þurfum við að:

  • Hækka íþrótta- og tómstundastyrk til barna og unglinga í Kópavogi í 80.000 kr.

  • Ókeypis í sund fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri.

  • Starfrækja tómstundavagn fyrir börn og unglinga sem þjóni öllum hverfum, á vegum Kópavogsbæjar, í samstarfi við íþrótta- og tómstundafélögin.

  • Styðja við afreksfólk í íþróttum þannig að við eigum sterkar og góðar fyrirmyndir innan bæjarins.

  • Bæta húsnæðismál þeirra íþróttafélaga og tómstundafélaga sem vantar úrræði t.d. vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu og langra biðlista.

  • Skoða möguleika þess að nota laust húsnæði í Kórnum fyrir fjölbreytt lista- og tónlistarstarf. Þar gæti verið öflug miðstöð fyrir ungt fólk sambærileg Molanum. Hljómsveitir fái æfingahúsnæði þar gegn því að spila opinberlega á viðburðum í bænum.

  • Nýta húsnæði skólanna fyrir tómstundir og klúbbastarf barna og unglinga s.s. leiklist, hönnun og tónlist. Mikilvægt er að nýta húsnæði skólanna sem sumt stendur autt á kvöldin.

  • Ljúka við byggingu húsnæðis fyrir Skólahljómsveit Kópavogs.