Íþróttabærinn Kópavogur

Kópavogsbær er íþróttabær. Íþróttafélögin í Kópavogi eru lýðheilsusamtök og eru meðvituð um sitt mikilvæga samfélagslega hlutverk. Þau hafa verið í fremstu röð, hvert í sinni íþróttagrein. Mikið hefur verið byggt af íþróttamannvirkjum en viðhaldi þeirra er ábótavant. Samfylkingin vill langtímaáætlun um uppbyggingu og viðhald á íþróttamannvirkjum bæjarins þannig að ástand þeirra sé alltaf til fyrirmyndar.

 

Samfylkingin vill hækka íþrótta- og tómstundastyrk til barna og unglinga í Kópavogi þannig að allir eigi kost á að stunda íþróttir, tónlistarnám eða aðrar tómstundir óháð efnhag.

 

Samfylkingin vill fara í víðtæka stefnumótun í samvinnu við íþróttafélögin í bænum um hvert sé þeirra samfélagslega hlutverk og tryggja samstarf út frá þeirri stefnu sem skilgreind er í þeirri vinnu. Lykilspurningar í þeirri vinnu eru tvenns konar:

1) Hvernig tryggjum við að öllum börnum og unglingum í Kópavogi verði tryggt aðgengi að íþrótta- og tómstundastarfi þar sem hæfileikar hvers og eins njóti sín sem best?

2) Hvernig tryggjum við að Kópavogur eigi áfram afreksfólk á íþróttasviðinu enda eru slíkir aðilar afar mikilvægir sem fánaberar um gildi heilbrigðrar íþróttastarfsemi á vegum bæjarins?

Íþróttir og hreyfing fyrir eldri borgara er ekki síður mikilvæg en fyrir yngri kynslóðina. Því á bærinn - oft í samvinnu við íþróttafélögin - að skapa eldri borgurum aðstöðu til að stunda öflugt íþrótta- og tómstundastarf sem og heilsurækt í íþróttamannvirkjum bæjarins. Kynna þarf vel fyrir eldra fólki hvaða möguleikar eru í boði og bjóða upp á akstur í íþróttamannvirki á þeim tíma dags sem þeim hentar.

Samfylkingin vill endurskoða og bæta rekstrar- og þjónustusamninga við íþrótta- og tómstundafélög í Kópavogi til að gera þau betur í stakk búin til að veita Kópavogsbúum úrvalsþjónustu, hvort sem um er að ræða almennings- eða afreksíþróttir og stuðla þannig að bættri heilsu og líðan fólks á öllum aldri. Efla þarf starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga eigi þau að geta unnið í aukinni samvinnu við frístund skólanna.

Til þess að halda við sterkri stöðu Kópavogs í þessum málaflokki þurfum við að:

  • Hækka íþrótta- og tómstundastyrk til barna og unglinga í Kópavogi.

  • Nýta húsnæði skólanna fyrir tómstundir og klúbbastarf barna og unglinga, svo sem leiklist, hönnun og tónlist. Mikilvægt er að nýta húsnæði skólanna sem sumt stendur autt á kvöldin.

  • Styðja þarf við afreksfólk í íþróttum þannig að við eignumst sterkar og góðar fyrirmyndir.

  • Bæta húsnæðismál þeirra íþróttafélaga og tómstundafélaga sem vantar úrræði, t.d. vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu og langra biðlista.

  • Endurbyggja Kópavogsvöll þannig að hann verði löglegur til alþjóðlegrar keppni í knattspyrnu. Það er óásættanlegt að keppnislið úr Kópavogi geti ekki leikið í Evrópukeppni á heimavelli sínum og þurfi að leita í önnur bæjarfélög til þess.

  • Leysa húsnæðis- og vallaraðstæður fyrir HK í Kórnum þannig að ásættanlegt sé. Reisa þarf löglegan knattspyrnuvöll við Kórinn og bæta aðstöðu HK í samvinnu við stjórnendur félagsins.

  • Styðja við uppbyggingu GKG við endurhönnun golfvallarins og nauðsynlegrar aðstöðu þar.

  • Styðja íþróttafélögin í bænum til að halda stóra íþróttaviðburði, bæði innlenda og alþjóðlega. Afleidd störf af stórum íþróttamótum eru mörg.