600 börn í Kópavogi lifa undir fátæktarmörkum.

Samfylkingin stefnir að því að útrýma fátækt barna í Kópavogi. Samkvæmt skýrslu UNICEF um fátækt barna hér á landi kemur í ljós að rúmlega 6.000 börn séu undir skilgreindum fátæktarmörkum. Af því má draga þá ályktun að um 600 börn í Kópavogi búi undir fátæktarmörkum. Því vill Samfylkingin breyta. Breytingar krefjast pólitískra ákvarðana.

Kópavogur sem samfélag á ekki undir neinum kringumstæðum að sætta sig við að börn búi við eða undir fátæktarmörkum í bæjarfélaginu.  Til skamms tíma litið þarf að fjölga félagslegum íbúðum en húsnæðismálin eru einn stærsti orsakavaldur fátæktar. Til lengri tíma er mikilvægt að efla fyrirbyggjandi aðgerðir og grípa þannig strax inn í neikvæða þróun í stað þess að láta vandamálin vaxa og grípa ekki inní fyrr en í óefni er komið.  Með fyrirbyggjandi aðgerðum er átt við að efla ungbarnaeftirlit, heilsugæsluna og grunn- og leikskólann þannig að hægt sé að grípa inn snemma þegar vandamál gera vart við sig. Enn fremur þarf að efla stuðning við foreldra t.d. vegna fæðingarþunglyndis eða kvíða og bjóða upp á sérfræðiaðstoð fyrir börn og unglinga. Þessi inngrip munu gera það að verkum að við munum fá færri tilfelli þar sem alvarleg tilvik hafa fengið að þróast og sem krefjast mikilla útgjalda síðar.

Fátækt er oftar en ekki tilkomin vegna áfalla sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni, áfalla sem hugsanlega hefði verið hægt að vinna með snemma á lífsleiðinni og auka þannig lífsgæði viðkomandi einstaklinga. Allir eiga að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og ráðast skal gegn fátækt með öllum tiltækum ráðum. Stefnt skal að samvinnu velferðarsviðs Kópavogsbæjar, leik- og grunnskóla og heilsugæslunnar í Kópavogi í forvörnum.

 

Til þess að útrýma fátækt í Kópavogi þurfum við að: 

  • Fjölga félagslegum búsetuúrræðum í Kópavogi og draga þannig úr biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

  • Bjóða verkalýðshreyfingunni upp á samstarf um uppbyggingu á húsnæðiskerfi fyrir einstaklinga sem ekki komast inn á húsnæðismarkaðinn og hafa ekki aðgang að félagslega kerfinu. Þannig geti Kópavogur skapað úrræði fyrir ungt fólk, aldraða og tekjulága svo að þeir geti leigt öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

  • Tryggja rétt fatlaðra til að sækja vinnu og tómstundir.

  • Stofna notendaráð fatlaðra í Kópavogi.

  • Nýta samtengd úrræði vegna barna í erfiðum fjölskylduaðstæðum og beita snemmtækri íhlutun.

michal-parzuchowski-224092-unsplash.jpg