Jöfn tækifæri fyrir alla

Samfylkingin í Kópavogi starfar samkvæmt grunnstefi jafnaðarmanna um að allir skuli búa við jöfn tækifæri, óháð efnahag. Það grunnstef skal haft að leiðarljósi við alla stefnumótun og ákvarðanatöku í félagsþjónustu. Við viljum að jöfnuður verði tryggður með samhjálp. Allir Kópavogsbúar eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri samfélagslegri þjónustu óháð efnahag. Hver einstaklingur á að hafa möguleika til að nýta sína hæfileika, sér og öðrum til hagsbóta.

Tryggja þarf þjónustu og skilvirkni Félagsþjónustu Kópavogs. Mikilvægt er að skjólstæðingar Félagsþjónustunnar fái ávallt þá bestu þjónustu sem völ er á og að öll nauðsynleg úrræði séu til staðar fyrir notendur þjónustunnar. Auka þarf áherslu á sértæk úrræði þar sem ekki virka sömu lausnir og úrræði fyrir alla. Leggja þarf aukna áherslu á sértæk velferðarúrræði á öllum sviðum vegna þess að almennar aðgerðir henta ekki öllum. Kerfið má ekki vera svo kassalaga að fólk passi ekki inn í það.

Tryggjum áhyggjulausa ævidaga

Aðgengi eldri borgara að upplýsingum og þjónustu í Kópavogi er of flókið. Það er erfitt fyrir aldraða og aðstandendur þeirra að vita hvert á að leita eftir nauðsynlegri þjónustu. Það er mikilvægt að heimahjúkrun og heimaþjónusta verði samþætt og efld. Við leggjum einnig áherslu á málastjóra fyrir aldraða Kópavogsbúa sem aldraðir og aðstandendur þeirra geti leitað til við úrlausn sinna mála.

Stytta þarf biðlista eftir dagvistun aldraðra. Nú eru um 100 aldraðir á biðlista eftir dagþjónustu og sá biðlisti hefur ekkert styst á undanförnum árum. Það eru mannréttindi að aldraðir fái að vera samvistum við jafningja og nái að rjúfa einangrun með því að sækja dagþjónustu á vegum sveitarfélagsins einhverja daga í viku. Lengi hefur staðið til að útbúa dagvistun í Gjábakka fyrir 20-25 aldraða sem ekki þurfa mjög mikla umönnun en enn bólar ekkert á nauðsynlegum framkvæmdum. Það er forgangsmál að boðið verði upp á fleiri dagvistunarpláss. Þessi hópur hefur ekki tíma til bíða! Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að auka verulega lífsgæði eldri borgara og koma í veg fyrir ýmsa lífsstílssjúkdóma með því að bjóða upp á skipulagða hreyfingu og líkamsþjálfun. Samfylkingin í Kópavogi vill styðja við fjölbreytt tómstunda- og íþróttastarf meðal aldraðra. Mikilvægt er að ná til eldri borgara sem búa einir á heimilum sínum og virkja þá í hreyfingu og samfélagi aldraðra.

Fólk með fötlun

Skammtímavistun fyrir fötluð börn er börnunum mjög mikilvæg sem og fjölskyldum þeirra. Barnið fær að vera með jafningjum og brjóta upp daglega rútínu og foreldrar barnanna þurfa hvíld og tíma til að veita öðrum börnum sínum aukna athygli og umönnun. Undanfarin ár hefur skammtímavistun verið sótt til annarra sveitarfélaga. Þarna þarf að bæta um betur og það þarf að vera forgangsmál að byggja eða kaupa húsnæði til skammtímavistunar.

Atvinna er stór og mikilvægur þáttur í lífi fólks. Margt fatlað fólk býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu sem getur nýst í ýmsum störfum, en þarf stundum aðstoð eða vinnuaðstöðu, aðgengi, vinnutíma og verkefni sem koma til móts við þarfir þess. Fjölga þarf sértækum vinnuúrræðum og störfum með stuðningi. Einnig þarf Kópavogsbær að ganga á undan með góðu fordæmi í að ráða hreyfihamlað fólk til starfa.

Vinna þarf áfram að uppbyggingu NPA (notendastýrðrar persónulegrar þjónustu) með auknum stuðningi ríkis.

 

Við viljum að heimahjúkrun og endurhæfing aldraðra verði efld til muna og samþætt til að auka val, bæta gæði og minnka þörfina fyrir ný hjúkrunarrými.

 

Nauðsynlegt er að fjölga hjúkrunarrýmum og dagvistunarrýmum enda fyrirsjáanleg mikil fjölgun í hópi eldri Íslendinga sem munu þurfa á aukinni þjónustu að halda. Það er aðkallandi að bæta aðgengi að dagvistun aldraðra, en um 100 manns eru á biðlista.

Við viljum:

  • Samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun fyrir aldraða.

  • Að aldraðir og aðstandendur þeirra geti leitað á einn stað vegna þjónustu við þá, hvort sem hún er á hendi ríkis eða bæjar.

  • Vinna að því að fjölga dagvistunarplássum fyrir aldraða. Þetta er forgangsmál!

  • Koma á málastjóra fyrir alla aldraða Kópavogsbúa.

  • Vinna í samráði við öldungaráð Kópavogs að því að tryggja félagslega virkni eldri borgara í Kópavogi. Félagsstarf, heilsurækt, íþróttastarf, endurmenntun, menningar- og listastarf eru meðal þeirra þátta sem bjóða þarf upp á.

  • Gera átak í að ná til eldri borgara sem búa einir og bjóða þeim upp á heilsueflandi heimsóknir, útivist og búðarferðir.

  • Setja skammtímavistun fyrir fötluð börn í forgang.

  • Fjölga sértækum vinnuúrræðum og störfum með stuðningi.