Jöfn tækifæri, óháð efnahag.

Samfylkingin í Kópavogi starfar samkvæmt grunnstefi jafnaðarmanna um að allir skuli búa við jöfn tækifæri, óháð efnahag. Það grunnstef skal haft að leiðarljósi við alla stefnumótun og ákvarðanatöku í félagsþjónustu. Við viljum að jöfnuður verði tryggður með samhjálp. Allir Kópavogsbúar eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri samfélagslegri þjónustu óháð efnahag. Hver einstaklingur á að hafa möguleika til að nýta sína hæfileika sér og öðrum til hagsbóta.

Tryggja þarf þjónustu og skilvirkni Félagsþjónustu Kópavogs. Mikilvægt er að skjólstæðingar Félagsþjónustunnar fái ávallt bestu þjónustu sem völ er á og að öll nauðsynleg úrræði séu til staðar fyrir notendur þjónustunnar.

Tryggjum áhyggjulausa ævidaga.

Samfylkingin lagði til og fékk samþykkt nýlega stofnun Öldungaráðs í Kópavogi. Ráðið hefur á stuttum starfstíma þegar sýnt fram á mikilvægi sitt með góðum umræðum og tillögum um málefni aldraðra í Kópavogsbæ.

Hreyfing er ein mikilvægasta forvörn sem til er fyrir eldri borgara. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að auka lífsgæði eldri borgara verulega og koma í veg fyrir ýmsa lífstílssjúkdóma með því að bjóða upp á skipulagða hreyfingu og líkamsþjálfun. Samfylkingin í Kópavogi vill efla íþróttastarf meðal aldraðra og gefa öllum sem vilja tækifæri til að stunda hreyfingu, hvort heldur sem það er sund, ganga eða styrktaræfingar. Þetta má meðal annars gera með því að bjóða upp á rútuferðir á morgnana á æfingar í íþróttamannvirkjum, sér í lagi á veturna þegar eldri borgarar eiga óhægt með að aka sjálfir á staðinn. Mikilvægt er að ná til eldri borgara sem búa einir á heimili sínu og virkja þá í hreyfingu og samfélagi aldraðra.

 

Við viljum að heimahjúkrun og endurhæfing aldraðra verði efld til muna og samþætt til að auka val, bæta gæði og minnka þörfina fyrir ný hjúkrunarrými.

 

Nauðsynlegt er að fjölga hjúkrunarrýmum enda fyrirsjáanleg mikil fjölgun í hópi eldri Íslendinga sem munu þurfa á hjúkrunarrými að halda. Það er aðkallandi að bæta aðgengi að dagvistun aldraðra, en á milli 100 og 200 manns eru á biðlista.

Við viljum:

  • Efla heimaþjónustu og heimahjúkrun fyrir aldraða.

  • Vinna að því að fjölga hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum fyrir aldraða á viðráðanlegu verði.

  • Bæta aðgengi aldraðra að dagvistun.

  • Vinna í samráði við Öldungaráð Kópavogs að því að tryggja félagslega virkni eldri borgara í Kópavogi. Félagsstarf, heilsurækt, íþróttastarf, endurmenntun, menningar- og listastarf eru meðal þeirra þátta sem bjóða verður upp á.

  • Gera átak í að ná til eldri borgara sem búa einir og bjóða þeim upp á heilsueflandi heimsóknir, útivist og búðarferðir.