Við viljum gera Kópavog grænni.

Hlutverk sveitarstjórna í dag er að gera grænan lífstíl að raunhæfum valkosti fyrir íbúa og auka umhverfisvitund þeirra. Grænar samgöngur eiga að vera raunhæfur kostur fyrir Kópavogsbúa.

Í landi Kópavogs eru mörg svæði þar sem hægt er að þróa byggð þannig að stutt sé fyrir íbúa í almenningssamgöngur, þjónustu, verslun, skóla, atvinnu og útivistarsvæði.

IMG_8726.jpg
 
IMG_8730-Edit.jpg

Snjallari Kópavogur.

Við ættum að nota hagkvæmar og umhverfisvænar snjalllausnir við þróun á skipulagi og umhverfi. Dæmi þar sem hægt er að nýta snjalllausnir eru deilihagkerfi bíla, sorplosun og öryggismál svo eitthvað sé nefnt.

Bættar almenningssamgöngur í þéttbýli spara fé, bæta loftgæði, lýðheilsa batnar og lífsgæði aukast. Nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er eina raunhæfa leiðin til að mæta fólksfjölgun komandi ára og áratuga, þróun byggðar og ferðaþörfum íbúa og ferðamanna. 

Þar mun Borgarlínan leika lykilhlutverk í framtíðinni.

Eitt megin markmið Borgarlínu er að fjölga notendum almenningssamgangna. Fái framhaldsskólanemar ókeypis í strætó má búast við að notkun þeirra á almenningssamgöngum aukist og að þeir líti á almenningssamgöngur sem raunhæfan kost í framtíðinni. Við sjáum fyrir okkur að höfuðborgarsvæðið verði skipulagt sem ein heild til framtíðar sem eitt búsetusvæði, atvinnumarkaður með sameiginlegar náttúruperlur, auðlindir og grunnkerfi.

 

Við viljum:

 • Taka þátt í og styðja við uppbyggingu Borgarlínunnar.

 • Vinna að því að gera Kópavog plastpokalausan.

 • Tengja Kópavogsdalinn við menningu og listir með uppbyggingu á þjónustu, hönnunar- og menningarmiðju við Dalveg með tengingu við dalinn.

 • Tryggja með allsherjarendurskoðun að svæðið frá Kársnestá meðfram sjónum að sunnan, austur Kópavogsdal að Reykjanesbraut verði órofið og eitt glæsilegasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins til framtíðar.

 • göngu- og hjólabrú verði byggð yfir Reykjanesbraut frá Glaðheimasvæði að 201 Smári.

 • Fjölga grænum svæðum og fækka gráum í samvinnu við íbúa og fyrirtæki.

 • Setja af stað átak í gerð göngu- og hjólastíga um land Kópavogs og bæta aðstöðu í kring með skjólbeltum, vatnspóstum og upplýsingaskiltum. Áhersla verður lögð á að tengja útivistarsvæði saman með göngu- og hjólreiðarstígum.

 • Að sjá til þess að gangstéttir og göngu- og hjólastígar verði færir á veturnar með því að bæta mokstur og  hálkueyðingu.

 • Sjá til þess að Kópavogur styðji við Parísarsamkomulagið með öllum ráðum.

 • Standa vörð um vatnsvernd og vatnsverndarsvæði.

 • Taka tillit til umhverfissjónarmiða í stjórnsýslu bæjarins.

 • Nýta útivistarsvæði Kópavogsbæjar betur líkt og Hlíðargarð og Rútstún. Við viljum auðga og byggja upp útivistarsvæðin í Smáranum, Fossvogsdal, Kópavogsdal, Guðmundarlundi , Kórum og Sölum.

 • Taka upp samgöngustyrki fyrir starfsmenn bæjarins.

 • Kaupa umhverfisvæna bíla fyrir bæinn þegar gömlum er skipt út.

 • Snjallari Kópavogur. Nýta snjalllausnir til hagsældar fyrir íbúana.

 • Gefa Kópavogsbúum tækifæri til þess að velja mismunandi  losunartíma á sorpi og auka þá flokkun sem í boði er. Þeir sem flokka og þurfa minni þjónustu greiði lægra gjald fyrir sorphirðu.

 • Tryggja að framhaldsskólanemendur fái ókeypis í strætó.

 • Styðja áfram gerð brúar yfir Fossvog.

 • Hjólastæði verði byggð við samgöngutorg.