Atvinnulíf og nýsköpun

Á höfuðborgarsvæðinu býr um þriðjungur landsmanna og það er eitt atvinnusvæði. Gríðarleg tækifæri liggja í miðlægri staðsetningu bæjarfélagsins til að verða þungamiðja í uppbyggingu atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu en til þess þarf að vanda til verka.

Núverandi meirihluti hefur ekki hugmyndaflug til að móta framtíðarsýn í þessum mikilvæga þætti. Í dag ríkir stöðnun. Framtíðarsýn er engin um hvert bærinn skuli stefna. Öll áhersla liggur á byggingu íbúðarhúsnæðis í séreign án tillits til þeirra sem virkilega þurfa á að halda. Atvinnulífið er ekki í þeim forgangi sem það á að hafa. Það vantar leiðarljós um þá hugmyndafræði sem byggir upp atvinnulíf þekkingar og nýsköpunar. Samfylkingin vill innleiða tiltæk verkfæri sem snúa að nútímastjórnarháttum.

Það er hlutverk Kópavogs að sjá til þess að atvinnuuppbygging standist kröfur 21. aldar um gott aðgengi, öruggar samgöngur fyrir alla og grænt umhverfi og séu í takt við hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Fyrir utan að standa vörð um þjónustu fyrirtækja sem eru í bænum er mikilvægt að Kópavogur sæki fram í vaxtargreinum líkt og ferðaþjónustu, skapandi greinum og hugvitsgeira. Uppbygging ferðaþjónustu er nátengd uppbyggingu menningarstarfs og varðveislu menningarminja, auk þess sem bætt aðgengi ferðamanna að verslun í Kópavogi skiptir miklu máli.

Við viljum:

  • Innleiða hugmyndafræði klasastefnu til að byggja upp starfsskilyrði atvinnugreina sem henta staðsetningu Kópavogs á miðju höfuðborgarsvæðinu. Það er gert með því að skilgreina styrkleika Kópavogsbæjar með hliðsjón af núverandi starfsemi á sviði þekkingar og nýsköpunar í bænum en þar liggja miklir möguleikar innnan bæjarmarka Kópavogs.

  • Móta styrkleika Kópavogsbæjar með hliðsjón af núverandi starfsemi á sviði þekkingar og nýsköpunar og þróa núverandi og ný atvinnusvæði þar sem áhersla verði lögð á starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

  • Skilgreina Kópavogsdal sem vettvang fyrir klasastarfsemi á sviði lýðheilsu og tengdrar atvinnustarfsemi og menntunar.

  • Koma á fót nýsköpunarreit í Kópavogi ætluðum sprotafyrirtækjum, t.d. við Dalveg.

  • Setja á fót hvata sem laða að fyrirtæki í ferðaþjónustu, skapandi greinum og hugvitsgeira að þjónustu í Kópavogi.

  • Styðja íþróttafélögin í bænum til að halda stóra íþróttaviðburði, bæði innlenda og alþjóðlega. Afleidd störf af stórum íþróttamótum eru mörg.