Kjósum nýjan bæjarstjóra í Kópavogi

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi og bæjarstjóraefni leiðir lista Samfylkingarinnar í Kópavogi en hann hefur sterkar tengingar til bæjarins allt í kringum sig.

Hvernig stóð á því að þú fluttir úr Reykjavík í Kópavog?

„Ég flutti í Kópavoginn fyrir rúmum þrjátíu árum til að elta Sigrúnu Jónsdóttir eiginkonu mína en hún er uppalin í Kópavogi og vildi hvergi annars staðar búa, enda með sterkar taugar til bæjarins eins og ég átti fljótlega eftir að komast að.” Sigrún hefur verið virk í pólitík frá háskólaárunum en þegar hún var 23 ára tók hún þátt í að stofna Kvennalistann og hún sat um tíma í bæjarstjórn fyrir Kópavogslistann og síðar Samfylkinguna í Kópavogi. “Ég fetaði svo í hennar fótspor, en Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í og hefur drifið mig áfram í baráttunni þegar það hefur verið á brattann að sækja. Hún kann líka að vinna kosningar eins og við ætlum að gera hér í Kópavogi á laugardaginn.“

Pétur við upplestur ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur vegna félagslegs húsnæðis.jpg
Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Saman eiga Pétur og Sigrún þrjú börn sem hafa öll alist upp í Kópavogi og hafa sterkar rætur til bæjarfélagsins hvert á sínu sviði.  

„Ég er heppinn að eiga þrjú heilbrigð en mjög ólík börn, yngst er Jóna Þórey sem er komin út í pólitík eins og foreldrarnir en hún er oddviti Röskvu í Háskóla Íslands og vann stórsigur í kosningum til Stúdentaráðs í vetur. Elsti sonurinn, Sigurður Hrafn, hefur verið viðloðandi fimleikastarf í Gerplu í 25 ár, fyrst sem iðkandi og svo sem þjálfari og alþjóðlegur dómari. Hann fylgdi svo í fótspor föðursins og er í sambúð með Kópavogskonunni Svanhvíti Sigurðardóttur og saman eiga þau tvíburana Einar Hrafn og Arnar Loga. Þau búa í Kópavoginum og gengu bæði í MK á sínum tíma."

 
Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í.
 

Miðjubarnið er svo afrekshlauparinn Arnar Pétursson, en var Pétur Hrafn lunkinn hlaupari á sínum tíma?

„Ég var sjálfur í fótboltanum lengi vel og spilaði meira að segja sem atvinnumaður á Hornafirði í gamla daga“ segir Pétur og hlær. „Ég verð seint talinn mikill hlaupari en mitt helsta afrek er líklega þegar ég hljóp heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 2005. Þó að tíminn hafi ekki verið sérstakur varð þetta til þess að Arnar fékk alvöru áhuga á að hlaupa maraþon og núna hefur hann sett stefnuna á Ólympíuleikana 2020. Það væri algjör draumur að fjölskyldan myndi fara saman til Tókýó og fylgjast með.”

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

 
Til þess að vera góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi.
 
Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Þetta hljómar eins og mikið íþróttaheimili, er öll fjölskyldan á kafi í íþróttum?  

„Okkur Sigrúnu fannst mikilvægt að senda börnin snemma í íþróttir því þær eru góður undirbúningur fyrir framtíðina. Ekki nóg með að þar læri krakkar ákveðna félagsfærni og öðlist hreyfigreind, heldur hjálpar íþróttaiðkun krökkum að átta sig á því að til þess að verða góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi. Þetta er hugarfar sem ég hef tamið mér og reynt að smita út frá mér og vona ég það að skili sér til bæjarbúa í mínum verkum í bæjarstjórn Kópavogs.”

Það er kominn tími á nýjar áherslur í Kópavogi og ekki síst tími til að fá nýjan bæjarstjóra í Kópavog.

Andrea Björk