Góð samvinna öllum að þakka

Betri Kópavogur hitti Ásu Richardsdóttur, fráfarandi bæjarfulltrúa okkar og heiðursætishafa Samfylkingarinnar.  Ása gaf ekki kost á sér að nýju fyrir þessar kosningar.

Ása , hvað ætlar þú að fara að gera?

Það sem ég hef verið að gera síðustu 24 ár. Ég hef starfað í leikhúsi og dansi frá 1994 en það ár stofnaði ég Kaffileikhúsið.  Síðustu 8 ár hef ég mest starfað sjálfstætt í norrænum, evrópskum og alþjóðlegum dansverkefnum. Ég dró í land síðustu 4 ár, það var töluvert tímafrekt að vera bæjarfulltrúi en nú ætla ég að þenja seglin og er meðal annars að undirbúa stærstu danshátíð sem haldin hefur verið á Íslandi.  Ég lifi og hrærist í listum, þar er minn staður.

Tímafrekt segirðu – hvað er þetta mikið starf?

Það fer alveg eftir því hvað þú leggur mikið í starfið.  Ég geri það sem ég tek að mér eins vel og ég get, ég set mig inn í málin, leita mér upplýsinga, tala við fólk og undirbý afstöðu mína.  Það hafa ansi margir fimmtudagar runnið upp og ég áttað mig á því að ég hef fátt annað gert en verið bæjarfulltrúi, þá vikuna. Ég myndi segja að þetta sé að lágmarki 50% vinna og fyrir það fáum við í dag 340 þúsund krónur á mánuði. Ég held að allir núverandi bæjarfulltrúar sinni starfinu af kostgæfni og vinni fyrir kaupinu sínu.

Á góðri stundi í sumrínu.jpg

Bíddu var ekki Theódóra í BF Viðreisn að segjast vilja lækka launin – og Miðflokkurinn kallar þetta “ofurlaun” í auglýsingum ?

Jú, það eru ýmsir að slá sig til riddara korter í kosningar, m.a. Theodóra, sem skrifaði undir ráðningasamning bæjarstjóra 2014, samþykkti allar breytingar á kjörum bæjarfulltrúa með atkvæði sínu og þiggur sjálf rúmar 800 þúsund krónur á mánuði sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi auk sem hún fékk um tíma full laun sem alþingismaður að auki. Það er í besta falli hjákátlegt að hlusta á hana sverja af sér launahækkun bæjarfulltrúa, í ljósi hennar eigin sögu.

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Staðreyndir málsins eru þessar.  Þegar við settumst í bæjarstjórn voru bæjarfulltrúalaunin 175 þúsund á mánuði og höfðu ekki hækkað lengi. Starfið var metið 27% af þingfararkaupi.  Fyrri bæjarstjórn hafði skipað nefnd til að laga starfskjör bæjarfulltrúa, en komst ekki að samkomulagi. Við fólum forsætisnefnd að vinna málið og sumarið 2016 var samþykkt tillaga um að hækka starfshlutfall bæjarfulltrúa í 33% af þingfararkaupi. Launin fóru í 251 þúsund á mánuði.  Í nóvember sama ár koma hið fáranlega fyrirbæri kjararáð með 44% sprengjuhækkunina fyrir alþingismenn. Þeir fá nú rúma 1,1 milljón króna á mánuði. Launin okkar hefðu þá átt að hækka í samræmi við það, því samkvæmt samþykktum bæjarins tókum við laun miðað við laun alþingismanna. Við ákváðum, öll sem eitt, að aftengjast þeim launum og miða þess í stað við launavísitölu.  Laun okkar fóru þá í 317 þúsund og eru nú 340 þúsund krónur á mánuði. Ef einhverjum finnst það ofurlaun þá verður sá hinn sami að rökstyðja það, ég er ósammála.

En hvað með laun bæjarstjóra?

Samfylkingin ein flokka, greiddi atkvæði gegn upphaflegum launakjörum bæjarstjóra sumarið 2014. Það gerði varabæjarfulltrúinn Kristín Sævarsdóttir í bæjarráði með svohljóðandi bókun:

 
Fulltrúi Samfylkingarinnar mótmælir háum launakjörum bæjarstjóra, sem er ekki í neinu samræmi við launakjör flestra starfsmanna bæjarins.
 

Laun bæjarstjóra tóku líka breytingum skv. þingfararkaupi og Ármann átti því rétt á 44% hækkun í nóvember 2016, samkvæmt ráðningasamningi.

Við í Samfylkingunni stóðum að því með öðrum bæjarfulltrúum að aftengja okkar laun og bæjarstjóra við kjararáð. Ég stend með þeirri ákvörðun – hinn kosturinn, 46% hækkun og áframhaldandi tenging launa okkar við kjararáð, var miklu verri kostur.  

Okkar skoðun var, er og verður að heildarlaun bæjarstjóra séu of há enda greiddum við atkvæði gegn upphaflegum ráðningasamningi.  Ég heyri ekki betur en að flestir bæjarfulltrúar, þ.m.t. Ármann sjálfur, séu núna sömu skoðunar og vilji finna viðmið sem almenningur getur sætt sig við.   Að vera bæjarfulltrúi og bæjarstjóri er ábyrgðarstarf líkt og mörg önnur störf í samfélaginu.

 

Bæjarfulltrúum hefur verið tíðrætt hversu gott samstarf er í bæjarstjórn og maður fær á tilfinninguna að sumir flokkar hafi reynt að eigna sér heiðurinn af því?

Ertu þá að hugsa um Bjarta  framtíð – sem núna heitir BF Viðreisn?

Já, en það er alls ekki svo, eiginlega síður en svo. Hér skipta allir bæjarfulltrúar máli, hvar í flokki sem þeir standa og í raun er það móðgun við aðra bæjarfulltrúa að halda því fram að gott samstarf sé einum flokki að þakka umfram öðrum.  

Við höfum öll lagt okkur fram um að standa saman að góðum málum. Það er bjargföst trú mín að samstarf kjörinna fulltrúa, þar sem hlustað er á sjónarmið allra, skilar miklu betri árangri fyrir Kópavogsbúa. Um leið er mikilvægt að fylgja sannfæringu sinni og hvika hvergi. Við í Samfylkingunni höfum t.d. barist gegn slæmum ákvörðunum í umhverfismálum og nægir að nefna andspyrnu okkar gegn veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Lyklafellslínu sem dæmi. Stórmál sem ekki sér fyrir endann á.                    

Í skipulagsmálum höfum við staðið með íbúum í Furugrund og Nónhæð og viljað fara allt aðra leið en meirihlutinn varðandi Smáratorg og Dalveg.  En við höfum líka og oftar reynt að fá aðra í lið með okkur, í velferðarmálum, menningarmálum og fleiri málaflokkum og þegar á heildina er litið höfum við náð góðum árangri þrátt fyrir að vera í minnihluta með því að vinna með öðrum og öðlast traust samherja sem og mótherja.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Þér finnst þetta greinilega gefandi og gaman, af hverju ertu að hætta?

Þó ég sé að hætta í bæjarstjórn þýðir það ekki að ég sé að hætta pólitískum afskiptum.  Ég er alin upp á mjög pólitísku heimili og pabbi minn, Richard Björgvinsson heitinn, var oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi í 24 ár.  Ég fór aðra leið, fyrst í Kvennalistann og svo í Samfylkingina þar sem ég hef verið í ýmsum trúnaðar- og forystustörfum í 18 ár. Kannski kem ég aftur, það er aldrei að vita!

Hvað er þér efst í huga daginn fyrir kjördag?

Þakklæti og von um að þeir sem kjörnir verða í bæjarstjórn á laugardaginn hugsi fyrst og síðast um hagsmuni Kópavogsbúa  og þeir starfi saman af heilindum og trúnaði. Okkar hópur hefur verið þéttur á kjörtímabilinu, við Pétur gott teymi og vil ég þakka honum sérstaklega sem og varabæjarfulltrúunum okkar Kristínu og Bergljótu. Frábært fólk sem ég treysti alla leið!

Mig langar líka að þakka núverandi forseta bæjarstjórnar, Margréti Friðriksdóttur, sem hefur í sínum störfum gætt þess að vera forseti bæði meirihluta og minnihluta, sem skiptir miklu máli fyrir gott samstarf innan bæjarstjórnar. 

Svo vona ég að sem flestir nýti atkvæðisrétt sinn, hann er svo dýrmætur!

Andrea Björk