Ræður og bókanir okkar á bæjarstjórnarfundi 26.6.2018

Um málefnasamning sjálfstæðismanna og framsóknar:

Málefnasamnningurinn

Bókun:
Málaefnasamningur sem liggur hér frammi er frekar gamaldags samningur gerður af gamaldags og íhaldssömum flokkum. Mörg atriða sem tiltekin eru í samningnum eru þegar komin af stað, önnur eru á valdi ríkisins að framkvæma. Fátt nýtt, frumlegt eða snjallt er að finna í málefnasamningnum. 

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ræða Bergljót:

Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Helsta verkefni sveitarfélaga í dag er að þjónusta íbúana í samræmi við þeirra þarfir.

Við viljum viðhalda barneiginum, til þess að það verði þarf að tryggja að foreldrar geti gengið að öruggri vistun fyrir börnin þegar fæðingarorlofi lýkur. þannig er það því miður ekki í dag, foreldrar þurfa m.a. að leita í önnur bæjarfélög eftir þessari þjónustu. Mikil nauðsyn að taka þetta skref.

Við  viljum tryggja börnum í grunnskóla öruggt athvarf allt árið til samræmis við þarfir foreldra á viðráðanlegu verði. Vistunar – og íþróttakostnaður barna er ein ástæða langs vinnudags hjá foreldrum. Komum til móts við foreldra í þessu verkefni svo þeir eigi möguleika á að njóta meiri tíma með börnum sínum.

Eldri borgarar finna til mikils óöryggis vegna takmarkaðs framboðs á öruggri vistun þegar þegar þess þarf. Margir sitja heima án nægilegrar þjónustu. Aukning á þjónustu til eldri borgara gengur allt of hægt og þessi hópur stækkar óðfluga.

Ég sé engin merki um öfluga framtíðarsýn hvað þessi  mál varðar í þessum málefnasamningi. Aðeins er verið að lofa að klára það sem þegar er hafið eða í pípunum. Við þurfum greinilega að bíða mun lengur en eitt kjörtímabil til að sjá einhverjar verulegar breytingar á þessari nærþjónustu sem færa okkkur nær sambærilegri þjónustu í nágrannalöndum okkar.

Eg tek undir með bæjarfulltrúa Theódóru S Þorsteinsdóttur um vöntun á stefnumótun til lengri framtíðar. Bæjarfélagið er á þeim tímapunkti í dag að þess er mikil þörf.

Ræða Péturs:

Hér liggur frammi málefnasamningur meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ekki er hægt að segja að um sé að ræða tímamótaplagg. Sumt er sjálfsagt að fara í, annað er þegar búið að ákveða og er fjöldi atriða tiltekin  í málefnasamningnum sem þegar hafa verið ákveðin. Sem dæmi má nefna að í málefnasamningnum er sagt að ljúka eigi við byggingu Kársnesskóla og byggja húsnæði yfir Skólahljómsveitina.  Snjóframleiðsla verði hafin í Bláfjöllum og endurnýjun búnaðar sem einnig er búið að ákveða sem og brú yfir Fossvogsdal.

Nokkrir punktar eru á valdi ríksins en ekki Kópavogs eins og bygging hjúkrunarheimilis við Boðaþing, fjölgun dagvistunarúrræða, leggja Reykjanesbraut í stokk eða göng og svo verkefnið endalausa sem sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið ár eftir ár en það er að ljúka við gerð Arnarnesvegar.

Nokkur atriði í samningnum eru tekin upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar og er það vel og munu bæjarfulltrúar flokksins að sjálfsögðu styðja við þau atriði. Þar má nefna: Sérhæfð úrræði fyrir börn með geðrænan vanda, Snemmtæk íhlutun og skimun, Bætt sálfræðiþjónusta og Efling íslenskukennslu og þjónustu fyrir börn og fjölskyldur af erlendum uppruna. Bæta á starfsumhverfi kennara og starfsfólks í leik og grunnskólum sem er vel og munu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar koma með tillögur þar að lútandi í menntaráð og bæjarstjórn í haust. Svo á að fjölga markvisst félagslegu húsnæði og öðrum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að byggja hagkvæmt húsnæði t.d. í samstarfi við húsnæðissamvinnufélög. Er þetta ánægjuleg þróun og ljóst að þarna hefur dropinn holað steininn því þótt sjálfstæðisflokkurinn og björt framtíð hafi fellt allar tillögur Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í þessum efnum virðast bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa séð ljósið og hugmyndir í þessu efni náð inn í málefnasamninginn.

Nokkur atriði þurfa nánari skýringa við eins og hvað er átt við þegar Endurskoða á rekstrarfyrirkomulag félagslega íbúðakerfisins í Kópavogi. Gott að heyra frá bæjarstjóra að ekki standi til að einkavæða félagslega íbúðakerfið.  

Borgarlínan er hvergi nefnd á nafn en rætt um Þróun forgangsakreina fyrir almenningssamgöngur. Vona ég að ekki sé um stefnubreytingu að ræða þó bæjarfulltrúi Framsóknarflokks hafi verið andvígur Borgarlínu og að Kópavogur vinni að Borgarlínu í samstarfi við önnur sveitarfélög hér eftir sem hingað til.

Að lokum þá er tekið fram undir liðnum eldri borgarar Aukin virkni Öldungaráðs. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst. Öldungaráð fundaði mjög ört eftir að það var stofnað og hélt tvo almenna fundi með eldri borgurum. Ef það á að auka virknina sýnist mér að það þurfi að funda amk einu sinni í viku til að ná markmiðum málefnasamningsins.

Ég vil svo óska bæjarfulltrúum sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks alls hins besta í störfum sínum fyrir bæjarfélagið en jafnframt taka fram að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu veita þeim eðlilegt aðhald.

Ræða Bergljótar um fundargerð Skipulagsráðs

Vegna fundargerðar Skipulagsráðs frá 18.6.2018 liður 13.

Á 30. fundi skipulagsráðs þann 18. 6. 2018 óskaði ég eftir svari við tveimur spurningum: sú fyrri: hverju liði vinnu við endurskoðun deiliskipulags Kópavogsdals sem bæjarráð samþykkti að færi til gerðar fjárhagsáætlunar í mars 2016 og sú seinni: hvenær mætti vænta nýrrar hverfisáætlunar fyrir Kársnes.

Í svörunum kom fram að vinna við deiliskipulag Kópavogsdals hefur ekki hafist tveimur árum síðar og hverfisáætlun fyrir Kársnes er ekki tilbúin þrátt fyrir að blússandi uppbygging sé í gangi á nesinu. Íbúar Kópavogs geta því ekki enn séð hvernig lokaniðurstaða þeirrar uppbygginar mun líta út né haft skoðun á henni fyrr en mögulega allt of seint.

Þetta eru aðeins tvö dæmi um verkefni sem ekki eru unnin innan tímamarka þrátt fyrir að pólitísk forysta hafi samþykkt þau. Af hverju skildi það vera? Umhverfissvið Kópavogs hefur á að skipa öflugu liði en þeim eru skorður settar. Of mörg verkefni á sama tíma þýðir aðeins eitt. Einhverjum þeirra verður ekki sinnt.

Hvað lætur undan í endalausri uppbyggingu? Jú nærtækast er að geyma viðhald til síðari tíma. Allt sem getur beðið bíður. Hvaða áhrif hefur slík verkefnastýring? Sömu viðhaldslistarnir koma frá stofnunum bæjarins ár eftir ár því þeim er ekki sinnt. Að lokum þarf að fara í mjög dýrar aðgerðir til að afstýra niðurrifi ef það er þá hægt. Við höfum í dag dæmi um Kársnesskóla sem verður rifinn á næstu dögum, húsnæði bæjarskrifstofa var orðið svo heilsuspillandi að ekki þótti borga sig að gera við, búningsklefar íþóttahússins í Furugrund eru lokaðir vegna myglu og þannig mætti halda áfram að telja og viðhaldskostnaður eykst í réttu hlutfalli við tímann sem líður án viðhalds við hæfi.

Svona vinnubrögð hafa ekki aðeins áhrif á byggingarnar okkar heldur get ég ekki ímyndað mér að starfsfólk umhverfissviðs sé ánægt með ástandið. Of mikið álag til langs tíma er slítandi og er til marks um slaka stjórnsýslu. Það er ábyrgð kjörinna fulltrúa að tryggja að verkefni séu í samræmi við getu og að álag á starfsfólk bæjarins sé ásættanlegt svo hægt sé að vinna þau verkefni sem þarf að sinna. Við viljum halda í okkar góða starfsfólk og ekki setja það í þá stöðu að bæjarbúar beini spjótum sínum að þeim vegna vanáhalda sem er þó því miður of oft reyndin. Nú kalla ég eftir viðhaldsáætlun fyrir árið 2018 fyrir mannvirki bæjarins sem samþykkt var að setja fram í áætlunargerð síðasta árs.