Bæjarstjórnarfundur 23. október 2018

Við Elvar Páll Sigurðsson sátum bæjarstjórnarfund í dag og sáum til þess að umræður sköpuðust um húsnæðis- og sorpmál. Þetta var annars stysti bæjarstjórnarfundur sem ég hef setið, tæpir 2 tímar. Við komum þó í gegn að það verður haldinn vinnufundur um sorpmál. 
Hér eru ræður okkar og mynd af Elvari í pontu í fyrsta sinn.

Ræða Elvars:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar,

Mig langar að tala um fundargerð bæjarráðs frá 11. október þar sem Bjarg íbúðafélag óskaði eftir viðræðum við Kópavogsbæ varðandi samstarf um uppbyggingu almennra íbúða. Ég fagna því og vona að Kópavogsbær taki þessari ósk alvarlega. Bjarg íbúðafélag er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Þetta gæti komið sér vel fyrir meðal annars ungt fólk í bænum, ungt fólk sem er fast heima hjá foreldrum sínum, kemst ekki á almenna leigumarkaðinn og getur ekki keypt sér íbúð. Að mínu mati á Kópavogsbær að horfa út fyrir boxið í húsnæðismálum og þar kemur samstarf við Bjarg inn. Einnig tel ég mjög brýnt að Kópavogsbær skoði með fullri alvöru að byggja stúdentaíbúðir í bænum.

Í velferðarráði kom svo fram eftir fyrirspurn frá Samfylkingunni að það eru 126 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það þarf að vinna á þennan biðlista með einhverjum hætti. 63% af biðlistanum er fólk undir 40 ára, aðeins einn er yfir 67 ára. 51% eru einstaklingar án barna og 38,1% eru einstæðir foreldrar með 1 barn. Stærsti hópurinn bíður eftir 2ja herbergja- eða stúdíóíbúð. Þar er mesta þörfin og þar er lítið framboð á markaði og verð hátt. Það er einnig áberandi að ungt folk er í meirihluta þeirra sem eru á biðlista og því brýnt að bregðast við.

Ræða Bergljótar:
Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Í Fundargerð Sorpu frá 3.10 s.l. kemur fram að erfiðlega gengur að semja við Sorpstöð Suðurlands um nýjan urðunarstað á Suðurlandi sem þó hefur verið í bígerð í nokkur ár. Urðun á Álfsnesi á að leggjast af mjög fljótlega og því nauðsynlegt að finna nýjan stað.
En enginn vill sjá um urðun sorps í dag. Við verðum að gera ráð fyrir takmörkun á urðunarstöðum til framtíðar. M.a í ljósi þess hefur byggðasamlagið Sorpa fengið heimid til að taka lán til að starta framkvæmdum við jarð- og gasgerðarstöð sem á að minnka töluvert það magn sem í dag er urðað. Til þess að það megi gerast þarf sorphirða að breytast. Samkvæmt sérfræðiáliti er ekki hægt að setja innihald almennu sorptunnunnar í Jarð- og gasgerðarstöðina þó svo vonir standi til þess. Samkvæmt mínum upplýsingum verður flokkun almenns sorps á móttökustað aldrei nógu góð þannig að tryggja megi að sá jarðvegur sem framleiða á verði boðlegur. Það þýðir að miðað við núverandi sorphirðu leggst lítið til jarðgerðarstöðvarinnar. 
Enn eru mörg skref óstigin í sorphirðu og samkvæmt tölum Eurostat frá 2016 stendur Ísland sig afar illa m.v. aðrar Evrópuþjóðir. Sem dæmi er Ísland í 5 neðsta sæti í endurvinnslu plasts í Evrópu með aðeins 50% endurvinnslu og Ísland er í 4 neðsta sæti ef við mælum plastúrgang per íbúa sem er um 45 kg á ári.

Á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar þann 4. september s.l. var tekin fyrir tillaga um kröfu um flokkun sorps á byggingarstöðum við úthlutun lóða. Þetta er fín tillaga og er eitt skref í rétta átt. Við þurfum hins vegar að ganga lengra. Það er ekki nóg að heimilin flokki, fyrirtækin þurfa einnig að flokka og við þurfum að kenna einstaklingum að flokka í mun meiri mæli en nú er gert. Við þurfum að koma af stað vitundarvakningu um flokkun og plastnotkun. Það gerum við í samvinnu við fyrirtækin og heimilin í bænum. 
Vegna þessa tel ég nauðsynlegt að bæjarstjórn Kópavogs haldi vinnufund með sérfræðingum um sorphirðu og þá möguleika sem við höfum til að þessi mikla fjárfesting sem við ætlum að binda í Jarð- og gasgerðarstöðinni skili sér til okkar. Jafnframt getum við verið í fararbroddi innan byggðasamlagsins ef við náum betri árangri í sorphirðu og flokkun. Því það verður ekki nóg að við gerum vel, hin sveitarfélögin í samlaginu þurfa einnig að gera betur svo fjárfestingin sé til einhverra bóta.

Ég vil taka undir tillögu bæjarfulltrúa Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur á fundi bæjarráðs 11.10 um að Kópavogsbær marki sér stefnu í loftlagsmálum. Þetta skiptir allt máli.

En að öðru. Varðandi stefnumótun hjá Kópavogi þá þurfum við aðeins að velta fyrir okkur hver á að sinna stefnumótun í dag. Hingað til hafa allar nefndir og ráð átt að setja sér stefnur í sínum málum en nú hefur verið ráðinn starfsmaður hjá bænum til að sinna stefnumótun í anda heimsmarkmiða og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvor stefnan á þá að gilda. Þurfum við kannski að endurskoða tilgang og embættisbréf nefnda og ráða?
Við erum einnig að vinna stefnumótun m.t.t vísitölu félagslegra framfara. Þar eigum við mælikvarða sem mælir hvernig okkur gengur að vinna út frá þeirri stefnumótun sem bærinn hefur sett sér. Þessi mælikvarði þarf að vera sýnilegur og aðgengilegur alltaf. Þetta er hagstjórnartæki kjörinna fulltrúa og því nauðsyn að hann sé alltaf aðgengilegur og uppfærður.

Kveðja

Bergljót bæjarfulltrúi

Bergljót Kristinsdóttir