Til hamingju Kópavogur

Í dag 11. maí fagnar Kópavogur 63 ára afmæli kaupstaðarréttinda. Bærinn hefur vaxið og dafnað frá því að vera með rúmlega 1.600 íbúa árið 1955 yfir í að vera næst stærsta sveitarfélag landsins með rétt um 36.000 íbúa. Þessum degi er fagnað með ýmsu móti í bænum og eru hátíðir í mörgum leikskólum bæjarins í tilefni dagsins.

Bær barnanna

Fyrr á árum var Kópavogur kallaður barnabærinn vegna gríðarlegs fjölda barna sem bjuggu í bænum. Mörg þeirra bjuggu við fátækt. Áhersla bæjaryfirvalda var að byggja upp góða skóla og sinna börnunum eins vel og mögulegt var með það að markmiði að koma þeim heilbrigðum til manns. Segja má að vel hafi til tekist.

Samkvæmt rannsókn UNICEF eru enn fátæk börn á Íslandi og þar með talið í Kópavogi, þrátt fyrir þá velmegun sem ríkir. Ein megin ástæða fátæktar tengist húsnæði og því hvernig fjölskyldum gengur að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Óviðunandi húsnæði fjölskyldna getur haft mikil áhrif á líf barna t.d. þegar þau geta ekki haldið upp á afmæli sitt eða boðið vinum sínum heim til að leika við.

Hagkvæmt húsnæði

Húsaleiga er há í Kópavogi eins og í nágrannasveitarfélögum okkar og það er ein meginorsök fátæktar þar sem stór hluti ráðstöfunartekna leigjenda fer í greiðslu leigunnar.

Lóðaúthlutanir í Kópavogi á undanförnum árum, hafa verið til verktakafyrirtækja sem byggja til að selja á almennum markaði. Ekkert hefur verið úthlutað til húsnæðissamvinnufélaga, félaga námsmanna eða til Bjargs, félags í eigu verkalýðshreyfingarinnar, en öll hafa þessi félög það að markmiði að byggja hentugt, ódýrt húsnæði fyrir tekjulægri hópa. Húsnæði sem getur bjargað fjölda barna frá fátækt. Kópavogur hefur lítið sem ekkert aukið við félagslega íbúðaeign sína. Þessu verður að breyta. Samfylkingin í Kópavogi vill semja við húsnæðissamvinnufélög, félög námsmanna, félög aldraðra og félög í eigu verkalýðshreyfingarinnar um að þessir aðilar komi að uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði sem nýtist tekjulágum. Fjölbreytt úrræði í húsnæðismálum eru mikilvæg. Enn fremur vill Samfylkingin í Kópavogi tvöfalda framlag Kópavogsbæjar til kaupa á félagslegu húsnæði fyrir þá sem eru í brýnni þörf.

Samfylkingarfólk í Kópavogi sendir Kópavogsbúum öllum hamingjukveðjur í tilefni dagsins. Byggjum betri bæ og verum samfó.

Pétur Hrafn Sigurðsson
Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi