Áherslumál Samfylkingarinnar

Byggjum betri Kópavog

Samfylkingin setur húsnæðismál á oddinn í kosningunum 26. maí. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar / Viðreisnar hefur eingöngu úthlutað lóðum til verktaka sem byggja í hagnaðarskyni. Engum lóðum hefur verið úthlutað til byggingasamvinnufélaga sem byggja ekki í hagnaðarskyni, þessi afstaða segir allt sem segja þarf um hugmyndafræði meirihlutans. En hvaða lausnir býður Samfylkingin upp á?

Kaupum Vatnsendahæð

Bæjarráð samþykkti fyrir ári síðan að fela bæjarstjóra að ganga til viðræðna við ríkisvaldið um kaup á Vatnsendahæðinni sem er í eigu ríkisins. Ekkert hefur gengið í þessum viðræðum. Þess má geta að Garðabær keypti Vífilstaðalandið af ríkinu og tók sá gjörningur ekki langan tíma.  Vatnsendahæðin er 7.5 hektarar og þar er hægt að koma fyrir 350 íbúðum með góðu móti. Hér er möguleiki á að úthluta t.d. byggingafélaginu Bjargi lóðum fyrir u.þ.b. 150 íbúðum sem ætlaðar yrðu tekjulágum einstaklingum á viðráðanlegri leigu. Einnig byggingafélögum námsmanna og eldri borgara og líka verktökum sem vilja byggja í hagnaðarskyni.  Hins vegar gengur ekkert í viðræðum bæjarstjórans við fjármálaráðherrann sem þó er í sama flokki, býr í næsta bæjarfélagi og er 1. þingmaður kjördæmisins. Vissulega eru einhverjar hindranir í vegi en ekkert sem ekki ætti að vera hægt leysa. Það virðist hinsvegar skorta vilja hjá þeim sem eru við stjórnvölinn og þá verður ekki byggt. Á meðan eru tekjulágir leigendur í Kópavogi að greiða yfir 50% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Samfylkingin leggur áherslu á að klára þessi kaup sem fyrst og hefja úthlutun.

Brúum bilið

Annað mál sem Samfylkingin hefur sett á oddinn eru leikskólamálin. Samfylkingin vill að öll börn eigi möguleika á leikskólavist við 12 mánaða aldur. Við viljum brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans. Yfir 100 leikskólapláss standa eru ekki nýtt í leikskólum Kópavogs vegna starfsmannaskorts. Samfylkingin vill nýta þessi pláss. Við viljum gera það meira aðlaðandi að starfa í leikskólum með því að bæta starfsaðstæður og kjör starfsfólks. Samfylkingin vill stytta vinnuvikuna og gera starf í leikskólum samkeppnishæft við önnur störf í þjóðfélaginu.

Grænn, plastpokalaus og snjall Kópavogur

Þriðja málið sem Samfylkingin hefur sett á oddinn er grænn, plastpokalaus Kópavogur í samvinnu við verslanir í bænum og snjall Kópavogur með lausnir í ferðamálum, sorpmálum og umhverfismálum.

Það styttist í kjördag og þá ræðst hvernig bænum verður stjórnað næstu 4 ár. Við höfum skýra stefnu um betri Kópavog og þar fjöllum við um stefnu okkar í skólamálum, málefnum aldraðra, baráttuna gegn fátækt og  hækkun á frístundastyrk upp í 80.000 krónur. Stuðningur við Samfylkinguna 26. maí er nauðsynlegt framlag til breytinga hér í bæ þannig að við byggjum betri Kópavog saman.

Pétur Hrafn Sigurðsson

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi