Borgarlínan – bruðl eða nauðsyn

Mikið hefur verið rætt og ritað um fyrirhugaða Borgarlínu. Hluti Borgarlínu liggur úr miðbæ Reykjavíkur, yfir Fossvogsbrú, gegnum Kársnes að Hamraborg og þaðan upp í efri byggðir Kópavogs. Ferðatími farþega mun styttast verulega enda aki vagnarnir í sérrými.

Sumir telja Borgarlínu óþarfa og að hægt sé að leysa málið með því að breikka götur og gera nokkur mislæg gatnamót.  Framtíðarþróun Höfuðborgarsvæðisins sýnir fram á að það mun ekki duga. Áætluð fólksfjölgun á svæðinu fram til 2030 er 70 þúsund manns. Ef engin breyting verður á ferðavenjum mun það hafa í för með sér 42% aukningu á bílaumferð með tilheyrandi umferðaröngþveiti. Vegaframkvæmdir og mislæg gatnamót upp á 100 milljarða munu einar og sér ekki duga til að leysa vandamálið.

Markmið flestra bæjar- og borgarfulltrúa sem hafa haft aðkomu að málinu er að fólksfjölgun upp á 70 þúsund manns verði mætt án þess að álag á vegakerfið aukist í sama hlutfalli.  Það þýðir að fólki verði boðið upp á aðra lausn til að komast á milli staða en einkabílinn. Til þess þarf breyttar ferðavenjur og ef takast á að breyta ferðavenjum verður að bjóða upp á samkeppnishæfa lausn sem gerir það hagkvæmara fyrir íbúa að nota almenningssamgöngur eða hjólreiðar til að komast á milli staða. Til að vera samkeppnishæf þarf lausnin þarf að vera ódýrari fyrir notandan og hann þarf að komast hraðar á milli staða en með einkabílnum.  Það verður markmið Borgarlínunnar.  Sumir telja þetta ekki raunhæft markmið t.d. vegna veðráttunnar. Skoðaðar hafa verið sambærileg svæði á norðurlöndum þar sem veðurfar er svipað og þar notar fólk góðar almenningssamgöngur. Ætla má að Íslendingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu séu ekkert öðruvísi en frændur okkar á norðurlöndum.

Borgarlínan ein og sér mun ekki duga til. Það þarf að bæta umferðarstýringar og umferðarflæði. Fjölga samgöngustígum fyrir hjólreiðarfólk.  Líka þarf að ráðast í vegaframkvæmdir víða á höfuðborgarsvæðinu. Skemmst er fyrir okkur Kópavogsbúa að horfa til Arnarnesvegar sem nauðsynlegt er að klára og hefði í raun átt að klára fyrir löngu síðan. Það er hinsvegar ekki í höndum Kópavogsbæjar heldur ríkisins að klára það mál. Það á við um flest samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að endurbæta. Þau eru á verksviði ríkisvaldsins. Enginn vilji virðist  vera, hvorki nú né áður, hjá ríkisstjórninni að setja fé í samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og það þótt þetta kjördæmi eigi sjálfan fjármálaráðherrann og til skamms tíma samgönguráðherrann.

 

Pétur Hrafn Sigurðsson

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi