Fellur á glansmyndina

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar og nú nýlega Viðreisnar lætur sem allt sé í himnalagi í Kópavogi og dregur upp glansmynd af bæjarfélaginu. Stutt skoðun á ástandi mála sýnir að svo er ekki. Nýlega birtist kolsvört skýrsla um ástand íþróttamannvirkja sem hafa liðið fyrir skort á viðhaldi. Of langt mál væri að telja upp öll atriðin sem skýrslan tekur á en til að nefna nokkur þá er  sveppur kominn í glerið í gufubaðinu í Kópavogslaug, þakið lekur á íþróttahúsi Digraness og gólfið er ónýtt. Ekki hefur verið komið hitavatnstengingum á gervigrasvöllinn í Kórnum þannig að hann er ekki nothæfur á veturna, áhorfendaaðstaða er ekki klár fyrir handboltann í Kórnum og það á eftir að tengja hljóðkerfið. Gervigrasvöllurinn í Fagralundi er ónýtur og íþróttahúsi Snælandsskóla hefur verið lokað af heilbrigðiseftirlitinu.

Verið er að vinna að skýrslu um viðhaldsþörf annara mannvirkja í eigu Kópavogsbæjar og bendir margt til þess að hún verði enn svartari.  Skemmst er að minnast ástandsins á Kársnesskóla sem verður rifinn. Beiðni kom fram um skýrsluna um viðhaldsþörfina við gerð síðustu fjárhagsáætlunar í október og verður áhugavert að sjá hvort hún komi fram fyrir kosningar. Það kæmi ekki á óvart ef vinnan við skýrsluna myndi tefjast eitthvað enda munu niðurstöður hennar ekki passa við glansmyndina. Samfylkingin í Kópavogi leggur áherslu á að sinna viðhaldi á eignum bæjarins.

Stikk frí í húsnæðismálum


Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð/Viðreisn hafa verið stikk frí í uppbyggingu á húsnæðismarkaðnum á kjörtímabilinu. Kópavogur hefur ekki úthlutað einni einustu  lóð til húsnæðissamvinnufélaga sem eru ekki hagnaðardrifin, ekki til húsnæðisfélaga námsmanna, eldri borgara eða til húsnæðisfélaga verkalýðsfélaganna. Tillögur bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar um úthlutun til þessara hópa voru felldar. Allar lóðir hafa farið til verktaka á einkamarkaði sem byggja til að hagnast á sölu íbúðanna. Ungir Kópavogsbúar flýja uppsprengt íbúðaverð í Kópavogi. Yfir 50% af ráðstöfunartekjum láglaunafólks á leigumarkaði fara í leigu sem hefur augljóslega gríðarleg áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra. Samfylkingin í Kópavogi mun vinna að samstarfi við húsnæðisfélög sem vilja tryggja öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og setja ekki hagnaðinn í fyrsta sæti.

Tími til að breyta

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í Kópavogi nánast samfellt í 28 ár og bæjarstjórinn er búinn að sitja í bæjarstjórn í 20 ár. Það er kominn tími til að breyta í Kópavogi og Samfylkingin í Kópavogi er tilbúin til að leiða þær breytingar.

Verum samfó á næsta kjörtímabili og gerum Kópavog betri.

Pétur Hrafn Sigurðsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar