Hamraborgin – metnaðarleysi meirihlutans

Meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hefur lagt til að farið verði yfir Hamraborgarsvæðið, frá Neðstutröð að Kópavogskirkju með það í huga að bæta svæðið. Með þessu móti er ætlunin, samkvæmt tillögunni að „draga fólk að menningarhúsum og gera svæðið að kennileiti bæjarins“ eins og segir í tillögunni. Hvorki meira né minna. Það á að „draga“ fólkið að og gera svæðið að kennileiti – Benda má á að Kópavogskirkja er nú þegar eitt þekktasta kennileiti bæjarins og henni verður ekki breytt. Hamraborgin sem slík er það sömuleiðis þó deilt sé um „fegurð“ hennar. Að „draga“ fólk að tilteknu svæði er ekki jákvæð nálgun, flestir vilja laða fólk að t.d. með áhugaverðum viðburðum í menningarhúsum bæjarins og hæpið er að þeir sem dregnir eru á ákveðið svæði upplifi það svæði með jákvæðum hætti.

Hugmyndin er hins vegar áhugaverð og getur verið til þess fallin að efla Hamraborgarsvæðið. Verklagið sem á að viðhafa er hins vegar frekar metnaðarlaust því í þetta verkefni á ekki að leggja neina sérstaka hönnunarvinnu. Enginn vilji er hjá meirihlutanum  til að leita nýrra hugmynda með því að fara út á markaðinn, leita til færustu hönnuða um nýstárlegar og snjallar hugmyndir og vinna málið af metnaði. Hér er því fremur um einhvers konar andlitslyftingu að ræða heldur en að stefnt sé að nýju yfirbragði og raunverulegum umbótum á svæðinu.

Mitt mat er að, ef leggja á í kostnað við að endurbæta og lagfæra Hamraborgarsvæðið til að laða að fleira fólk á svæðið, eigi að gera það af metnaði og kalla eftir nýjum og ferskum hugmyndum meðal hönnuða og arkitekta. Þetta lagði ég til í bæjarráði.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartar framtíðar sem segist að öllu jöfnu trúa  á samkeppni og skilvirkni markaðarins hafði ekki áhuga á þessu vinnulagi og tók ekki undir hugmynd mína. Það ætti kannski ekki að koma á óvart, þau virðast ekki hafa mikla trú á tillögum sem berast í samkeppnum eða frá utanaðkomandi aðilum varðandi skipulagsmál í bænum. Gleggsta dæmið er varðandi skipulagið á Kársnesinu þegar verðlaunatillögur um skipulag á svæðinu hlutu ekki einu sinni náð fyrir þeirra augum.

 

Pétur Hrafn Sigurðsson