Bætum Kópavogsdalinn

Kópavogsbúar eru ekki á eitt sáttir um miðbæ Kópavogs. Er Hamraborgin miðbær? Vissulega eru menningarhúsin okkar staðsett þar rétt hjá en tengjast ekki Hamraborginni beint. Erfitt gæti reynst að laga það umhverfi þannig að við bæjarbúar fáum miðbæjartilfinningu þar. 

Við getum gert annað. Við getum búið okkur til huggulega menningar- og þjónustumiðju í Kópavogsdal. Dalurinn er hjarta  Kópavogs. Þar er veðursæld mest í Kópavogi og þar nýtur fólk útivistar með ýmsu móti; gengur, hleypur, hjólar, spilar boltaleiki og frisbígolf. Og því ekki að bæta við strandblaki? En þar er enginn staður til að setjast niður og fá sér kaffibolla eða aðra hressingu. Ekkert svæði með litlum hönnunar- og frumkvöðlafyrirtækjum eða skemmtilegum búðum sem hægt er að rölta á milli. Við getum bætt þetta. Við Dalveginn er fyrirtækið Sorpa sem ætti starfseminnar vegna betur heima í útjaðri en í miðju bæjarins. Við getum skapað okkur fallegt svæði með þjónustu, menningu, hönnun og listum sem tengist dalnum beint á svæði Sorpu og niður eftir Dalveginum. Við gætum líka fært Dalveginn að Reykjanesbraut til að fá meira næði á þessu svæði.

Því miður hefur núverandi meirihluti í skipulagsráði Kópavogs undir forystu Theodóru Þorsteinsdóttur ákveðið að heimila byggingu 6.700 m2 geymsluhúsnæðis við Dalveg 32 sem er efsta lóðin við Dalveg. Samfylkingin barðist gegn þessu án árangurs. Það verður að teljast sérstök ráðstöfun á landi sem er staðsett á miðju höfuðborgarsvæðisins þegar við horfum upp á skort á byggingarlóðum i þéttbýli.

Samfylkingin vill byggja upp Kópavogsdalinn sem nýtt menningar-, samkomu- og útivistarsvæði Kópavogs. Í dalnum verði skipulagt svæði fyrir hönnunar- og frumkvöðlasetur, hugguleg kaffi- og veitingahús og opið samkomusvæði. Efnt verði til hönnunarsamkeppni um skipulag dalsins og strandlengjunnar að Kársnesi  sem útivistar- og þjónustusvæðis í fremstu röð til að tryggja að þessi útivistarperla okkar Kópavogsbúa verði okkur til ævarandi ánægju.

Bergljót Kristinsdóttir

Skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar til bæjarstjórnar í Kópavogi 2018.