Enginn kynbundinn launamunur hjá Kópavogsbæ eða hvað ?

Í skýrslu frá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri segir að „sé litið til dagvinnulauna konu og karls sem vinna sama starf, á sama sviði, eru á sama aldri og með sama starfsaldur þá er hægt að segja að ekki sé um kynbundinn launamun að ræða hjá Kópavogsbæ“. Það er ánægjuleg niðurstaða sem Kópavogsbær getur verið stoltur af, en skýrsluhöfundar kveða ekki sérlega sterkt að orði og segja „þá er hægt að segja“ enda er myndin ekki alveg svona klippt og skorin hvað launamun kynjanna varðar.  

Laun karla oftast hærri en kvenna

Skýrslan sýnir nefnilega að samkvæmt gögnunum, þá vinna karlar að jafnaði fleiri yfirvinnutíma en konur sem hefur bein áhrif á heildarlaun þeirra. Heildarlaun karla eru því í mörgum tilfellum umtalsvert hærri en heildarlaun kvenna. „Þegar meðal heildarlaun eru skoðuð fyrir alla starfsmenn Kópavogsbæjar óháð starfshlutfalli , og annarra áhrifaþátta, sést að þau eru 425.250 kr. Meðallaun karla eru 499.967 kr. en kvenna 407.693 kr. Heildarlaun kvenna óháð starfshlutfalli eru 81,5% af launum karla hjá Kópavogsbæ. Þegar litið er á óleiðréttan launamun á heildarlaunum innan starfsgreina, þá sést að karlar eru með hærri laun nema þegar kemur að leikskólakennurum en laun kvenkyns leikskólakennara eru hærri en karla. Hér er ekki tekið tillit til til áhrifaþátta eins og aldurs, starfs, sviðs, starfsaldurs og vinnutíma“.

Launamunur kynja.png

Hlutfallslegur heildarlaunamunur kynja eykst    

Áhyggjuefni er að hlutfallslegur heildarlaunamunur kynja hefur aukist hjá Kópavogsbæ samkvæmt könnuninni. Í könnun sem gerð var hjá Kópavogsbæ árið 2013 voru heildarlaun (fullt starf) kvenna 86,3% af heildarlaunum karla, en lækkuðu niður í 83,4% árið 2016.  Skýringar er ekki að finna í skýrslunni en svo virðist sem, einhverra hluta vegna, að karlar í störfum hjá Kópavogsbæ þurfi að vinna fleiri yfirvinnutíma en konur í sambærilegum störfum.

Eftirfarandi tafla úr skýrslunni um launakönnun starfsmanna Kópavogsbæjar sem gerð var af Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri. Taflan sýnir glöggt muninn á milli kynja hvað varðar yfirvinnu og álagsgreiðslur miðað við starfsaldur starfsmanna.


 

Pétur Hrafn Sigurðsson

bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar