Donata varabæjarfulltrúi fær viðurkenningu

kopurinn_2019.jpg

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í gær, fimmtudaginn 16. maí. Alls bárust tuttugu tilnefningar til menntaráðs og voru veittar fimm viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Donata H. Bukowska kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku og Halldór Hlöðversson forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Kjarnans hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Velkomin Prógramm, sem miðar að því að virkja ungmenni með annað móðurmál en íslensku í frístunda- og félagsstörfum. Verkefnið spannaði nokkra daga sitt hvoru megin við sumarfrí þar sem unglingum úr 7. – 9. bekk voru kynnt starfsemi félagsmiðstöðva og þau frístundatilboð sem þeim býðst í Kópavogi. Lögð var áhersla á félagslega þáttinn, virkni og þátttöku en einnig á menningar- og tungumálanám. Unglingarnir gerðu ýmislegt saman til að kynnast hvort öðru og starfsemi félagsmiðstöðvanna. Þau fóru t.d. í heimsókn á bæjarskrifstofur, fóru í morgunbíó, grilluðu saman, fóru í frisbý golf í Fossvogsdal, sigldu á bátum frá Siglingaklúbbnum, fóru í Lazer-tag og gönguferðir svo fátt eitt sé nefnt. Þetta verkefni skilaði glöðum unglingum sem fóru að taka virkari þátt í starfi félagsmiðstöðvarinnar sinnar.

Við óskum Donötu og Halldóri hjartanlega til hamingju.