Skóli fyrir allskonar

2 - Begga.jpg

Bergljót Kristinsdóttir skrifar:

Ég tók að mér forfallakennslu í grunnskóla í Kópavogi í vetur. Ég er ekki með uppeldismenntun en það segir sitt um stöðuna að umsókninni var tekið fagnandi. Ég sit í Menntaráði Kópavogs og fyrst færi gafst ákvað ég að kynna mér starfsumhverfi grunnskólakennara og barna af eigin raun.

Það hefur að mestu verið jákvæð reynsla en ég spyr mig samt reglulega hvort ekki sé hægt að gera betur. Í hverjum bekk eru að meðaltali 2 – 3 nemendur með einhverja greiningu eða röskun sem hamlar þeim í námi og einn með annað tungumál en íslensku sem móðurmál. Svo eru alltaf einhverjir mjög hressir þess utan. Oftar en ekki stendur forfallakennarinn í miðri kennslustund uppi með nokkur börn sem eru búin með það námsefni sem vinna átti í kennslustundinni. Hvað gerir hann þá? Jú leyfir þeim að fara í ipad. Það væri hægt að nýta tíma þessarra barna mun betur. Svo er vandinn að koma hinum börnunum á einn og sama staðinn í námsefninu. Það getur verið þrautin þyngri í því fjölskrúðuga samfélagi sem einn bekkur er í dag. Erlenda barnið situr jafnvel og starir út í loftið því það getur ekki gert sig skiljanlegt. Það fær aðeins 3 kennslustundir í íslensku á viku fyrsta dvalarárið á Íslandi, minna næstu tvö ár og eftir það ekkert. Hvernig á það nokkurn tíma að ná jafnöldrum sínum í námi eða félagslegum tengslum við hin börnin? Á mínum grunnskólaárum í Kópavogsskóla voru allt að 30 börn í bekk en öll með nokkuð svipaða getu. Að auki var svo einn lítill bekkur þar sem safnað var saman þeim börnum sem áttu erfitt uppdráttar í námi og félagsfærni og voru ekki virt viðlits af hinum. Hinir bekkirnir kepptu sín á milli í getu. Jöfn geta var líklega ástæða þess að hægt var að hafa svo mörg börn í bekk. Ósamstæði bekkjarhópurinn í dag lærir þó eitt. Hann tekur utan um þá sem minna mega sín og hefur mun meiri þolinmæði fyrir ágöllum annarra en við gerðum á minni tíð.

Já við getum gert betur. Við getum boðið börnum með annað móðurmál upp á mun betri íslenskukennslu og innan skólans væri hægt að skipta í hópa eftir getu t.d. með aukinni teymiskennslu til að nýta tíma allra sem best til náms við hæfi hvers og eins. Hvernig hljómar það?

Bergljót Kristinsdóttir, skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar til bæjarstjórnar Kópavogs 2018

Andrea Björk