Uppbygging í Kópavogi

Íbúum Kópavogs hefur fjölgað um 37% frá aldamótum og eru ríflega 37 þúsund í dag. Stöðug fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu kallar á stefnubreytingu í uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Ef koma á fyrir 70 þúsund íbúum til viðbótar á svæðinu á næstu 20 árum eins og áætlanir gera ráð fyrir, þarf að hugsa út fyrir boxið. Það er einmitt það sem skipulagsyfirvöld sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að gera. Þétting byggðar samfara háhraða samgöngukerfi gegnir lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn. Hratt gengur á möguleg nýbyggingarsvæði og því þarf að taka upp eldri byggð sem komin er til ára sinna og auka byggingarmagn verulega. Ef við viljum búa til alvöru borgarsamfélag þarf fleiri íbúa á hvern fermetra lands en við eigum að venjast. Þannig þrífast veitingastaðir og verslanir, þannig þrífst menning, þannig verða almenningssamgöngur sjálfbærar. Þannig verður mannlíf til. Maður er manns gaman og nálægð við mannlíf gerir allt samneyti auðveldara.

Þétting byggðar í Kópavogi

Uppbygging í kópavogi.jpg

Myndin sýnir kynntar áætlanir til næstu 10 ára sem gætu tekið breytingum.

Í Kópavogi er fyrirhugðuð töluverð þétting byggðar. Í elsta hluta bæjarins eru margar stórar lóðir illa nýttar og henta vel til þéttingarverkefna. Þess utan eru skilgreind þéttingarsvæði vestast á Kársnesi, við Naustavör, Auðbrekkusvæðið, Traðarreitir austur og vestur, Glaðheimar og Smárinn 201 sunnan Smáralindar. Í heild ættu þessi þéttingarsvæði að geta gefið af sér yfir 3.200 íbúðir á næstu árum. Uppbygging á Kársnesi er nú í fullum gangi og þar lítur út fyrir að rísa muni fyrirmyndar samfélag sem hefur alla möguleika á að verða vistvænt vegna nálægðar við hágæða almenningssamgöngukerfi. Nú líður að því að Traðarreitur austur á milli Kópavogsskóla og MK verði tilbúinn til uppbyggingar á allt að 180 íbúðum. Jafnframt eru áform um töluverða uppbyggingu á Traðarreit vestri sem nær yfir reitinn á millir Neðstutraðar og Vallartraðar auk Fannborgar 2, 4 og 6. Hann gæti gefið allt að 600 íbúðir. Það verður þó ekki alveg í bráð en slík uppbygging gæti gefið okkur góða möguleika á að gera Hamraborgarsvæðið að því skemmtilega miðbæjarsvæði sem stefnt var að í upphafi. Uppbygging íbúða mun halda áfram á Glaðheimasvæði á næsta ári, þar er gert ráð fyrir um 300 íbúðum til viðbótar. Þar er einnig gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði næst Reykjanesbraut. Sunnan Smáralindar er afar skemmtilegt 620 íbúða hverfi í uppbyggingu sem er að taka á sig mynd og er tilhlökkunarefni að sjá lokaniðurstöður þar. Tenging hverfa yfir Reykjanesbraut fyrir gangandi og hjólandi er vandamál í dag sem unnið er að lausn á. Hugmyndavinna er í gangi en hún krefst meiri tíma. Að þessu sögðu þurfum við að skoða okkar hug varðandi notkun bifreiða. Þétting byggðar þýðir fleiri bíla á fermetra lands nema við ákveðum að sporna gegn því. Hvað getum við gert?

Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Bergljót Kristinsdóttir