Bravó Bónus

Bónus hefur auglýst að í verslunum þeirra muni ekki verða  seldir einnota plastpokar hér eftir. Viðskiptavinir geti keypt margnota poka og þeir sem gleyma poka geta keypt innkaupapoka gerða úr maís sem eyðist mun fyrr í umhverfinu. Þetta eru góðar fréttir og ber að hrósa forsvarsmönnum og starfsfólki Bónusverslananna fyrir þessa ákvörðun. Eins og allir vita er plastmengun í heiminum gríðarleg og er að vaxa mannkyni yfir höfuð og því mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum. Alls er talið að Íslendingar hendi 70 milljónum plastpoka á ári og það taki um 500 ár fyrir hvern og einn þeirra að eyðast.

Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var Samfylkingin í Kópavogi með á sinni stefnuskrá að stefna að plastpokalausum Kópavogi í samvinnu við verslanir og þjónustuaðila í Kópavogi. Fyrirmyndir má meðal annars finna í Stykkishólmi og á Höfn. Ég fagna því ákvörðun Bónus og skora á önnur verslunar- og þjónustufyrirtæki í bænum að fylgja í þeirra fótspor. Samfylkingin í Kópavogi telur mikilvægt að allar stofnanir Kópavogsbæjar hætti notkun einnota pastpoka og mun leggja fram tillögu þess efnis í bæjarstjórn Kópavogs.  

 

Pétur Hrafn Sigurðsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.  

 

Bergljót Kristinsdóttir