Byggjum upp menningarbæ.

Í skólunum okkar fer fram listkennsla og menningaruppeldi sem breytir lífi barna okkar á hverjum degi. Kópavogsbúar eru 10% landsmanna. Þeir búa í bæ sem hefur alla burði til að verða skapandi, litskrúðugt og skemmtilegt samfélag.

Í bænum okkar starfar frábær skólahljómsveit sem fagnaði fimmtugsafmæli sínu árið 2017. Við erum með kröftugan tónlistaskóla sem rekur bestu raftónlistarbrautina fyrir unglinga á landinu. Barna og unglingakórar úr Kópavogi hafa náð athygli langt út fyrir landssteinana og unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna. Menningarstofnanir bæjarins svo sem Salurinn, Gerðarsafn og bókasafnið auðga líf okkar og hafa alla burði til að vera einstakar í sinni röð. Loks má nefna leikfélagið sem hefur verið að styrkjast á undanförnum árum.

 

Við hvetjum til þesss að fagmennska í listum blómstri áfram og að listafólkið fái raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið. Við þurfum að skapa skilyrði til að allir bæjarbúar geti tekið virkan þátt í menningarstarfi á eigin forsendum.

 

Framtíðarsýn okkar er að í Kópavogi verði rekin einstök starfsemi á lista- og menningarsviði sem laði til sín bæjarbúa, íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsmenn alla. Við nýtum menningarstofnanir, önnur hús og svæði um bæinn sem umgjörð utan um kraumandi menningarstarf og listflutning árið um kring. Kópavogur verði þekktur alþjóðlegur viðkomustaður í listum. Börnin okkar njóti frábærrar listkennslu á öllum skólastigum.

Skapandi greinar eru orðnar burðaratvinnugrein í Kópavogi, sem vegna sérstöðu sinnar skiptir verulegu máli fyrir svæðið og landið allt.

Við viljum:

  • Tryggja að hér þrífist og dafni öflug verk- og listkennsla í öllum skólum.

  • Hvetja til þess að fagmennska í listum blómstri og að listafólk fái tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið.

  • Sjá til þess að öllum grunnskólabörnum standi til boða leikhúss- og tónleikaferðir á hverju skólaári, þeim að kostnaðarlausu.

  • Koma á fót listahátíð á aðventu ár hvert þar sem menningarstofnanir, Borgarholtið og Hamraborgin verða vettvangurinn. Menningarstofnanir hafi forystu um gerð dagskrár og fái til þess fjármagn. Hátíðin verði þróuð ár frá ári með það að augnamiði að ná alþjóðlegri athygli.

  • Byggja upp Kópavogsdalinn, sem nýtt menningar-, samkomu- og útivistarsvæði Kópavogs.  Svæði við Dalveg verði skipulagt fyrir hönnunar- og frumkvöðlasetur, kaffihús og opið samkomusvæði. Efnt verði til hönnunarsamkeppni um skipulags dalsins og strandlengjunnar að Kársnesi  sem útivistar- og þjónustusvæðis í fremstu röð.