Bæjarmálafundur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Opinn bæjarmálafundur verður haldinn í Híðasmára 9, mánudaginn 8. október kl. 20. Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu reifa þau mál sem eru til umræðu í bæjarstjórn og kalla eftir skoðunum og óskum fundarmanna um hvar þau eigi að beita sér.

Allir velkomnir, stjórnin

Gunnar Gylfason
Opin félagsfundur með Guðmundi Andra og Margréti Tryggvadóttur

Mánudaginn 1.október kl.20:00 í Hlíðarsmára 9, ætla Guðmundur Andri alþingismaður og Margrét Tryggvadóttir varaþingmaður að koma til okkar í Kópavoginn. Margrét ætlar að fjalla um stjórnarskrármálið og hvar það sé statt og Guðmundur Andri ætlar sér að segja frá landsmálunum og því sem er að gerast á Alþingi.

Allir velkomnir, stjórnin.

Gunnar Gylfason
Bæjarmálafundur 24. september

Opinn bæjarmálafundur verður haldinn í Híðasmára 9, mánudaginn 24. september kl. 20. 
Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn og Bergljót munu reifa þau mál sem eru til umræðu í bæjarstjórn og kalla eftir skoðunum og óskum fundarmanna um hvar þau eigi að beita sér.

Bergljót Kristinsdóttir
Starfið veturinn 2018 - 2019

Stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi hefur skipulagt vetrarstarfið fram að áramótum og hér er dagskráin:

10.sept - Nefndarmannafundur
17.sept - Frí
24.sept - Opin bæjarmálafundur
1.okt - Opin félagsfundur (Logi formaður)
8.okt - Bæjarmálafundur
15.okt - Stjórnarfundir
22.okt - Bæjarmálafundur
29.okt - Frí
5.nóv - Opin fundur (Ræða framtíð öldrunarmála í Kópavogi)
12.nóv - Bæjarmálafundur
19.nóv - Stjórnafundur
26.nóv - Bæjarmálafundur
3.des - Opin fundur (ekki ákveðið)
10.des - Bæjarmálafundur
Jólafrí
10. jan 2019 Opin félagsfundur (málefni ungs fólks)

Við vonumst til að sjá sem flesta taka þátt í bæjarmálaumræðunni. Við þurfum að standa við bakið á bæjarfulltrúunum okkar, þeir þurfa að heyra í okkar fólki og fá umræðu um þau mál sem eru á dagskrá og ekki síst þau mál sem ættu að vera á dagskrá en eru það ekki.

Bergljót Kristinsdóttir
Ræður og bókanir okkar á bæjarstjórnarfundi 26.6.2018

Um málefnasamning sjálfstæðismanna og framsóknar:

Málefnasamnningurinn

Bókun:
Málaefnasamningur sem liggur hér frammi er frekar gamaldags samningur gerður af gamaldags og íhaldssömum flokkum. Mörg atriða sem tiltekin eru í samningnum eru þegar komin af stað, önnur eru á valdi ríkisins að framkvæma. Fátt nýtt, frumlegt eða snjallt er að finna í málefnasamningnum. 

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Ræða Bergljót:

Forseti og ágætu bæjarfulltrúar
Helsta verkefni sveitarfélaga í dag er að þjónusta íbúana í samræmi við þeirra þarfir.

Við viljum viðhalda barneiginum, til þess að það verði þarf að tryggja að foreldrar geti gengið að öruggri vistun fyrir börnin þegar fæðingarorlofi lýkur. þannig er það því miður ekki í dag, foreldrar þurfa m.a. að leita í önnur bæjarfélög eftir þessari þjónustu. Mikil nauðsyn að taka þetta skref.

Við  viljum tryggja börnum í grunnskóla öruggt athvarf allt árið til samræmis við þarfir foreldra á viðráðanlegu verði. Vistunar – og íþróttakostnaður barna er ein ástæða langs vinnudags hjá foreldrum. Komum til móts við foreldra í þessu verkefni svo þeir eigi möguleika á að njóta meiri tíma með börnum sínum.

Eldri borgarar finna til mikils óöryggis vegna takmarkaðs framboðs á öruggri vistun þegar þegar þess þarf. Margir sitja heima án nægilegrar þjónustu. Aukning á þjónustu til eldri borgara gengur allt of hægt og þessi hópur stækkar óðfluga.

Ég sé engin merki um öfluga framtíðarsýn hvað þessi  mál varðar í þessum málefnasamningi. Aðeins er verið að lofa að klára það sem þegar er hafið eða í pípunum. Við þurfum greinilega að bíða mun lengur en eitt kjörtímabil til að sjá einhverjar verulegar breytingar á þessari nærþjónustu sem færa okkkur nær sambærilegri þjónustu í nágrannalöndum okkar.

Eg tek undir með bæjarfulltrúa Theódóru S Þorsteinsdóttur um vöntun á stefnumótun til lengri framtíðar. Bæjarfélagið er á þeim tímapunkti í dag að þess er mikil þörf.

Ræða Péturs:

Hér liggur frammi málefnasamningur meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ekki er hægt að segja að um sé að ræða tímamótaplagg. Sumt er sjálfsagt að fara í, annað er þegar búið að ákveða og er fjöldi atriða tiltekin  í málefnasamningnum sem þegar hafa verið ákveðin. Sem dæmi má nefna að í málefnasamningnum er sagt að ljúka eigi við byggingu Kársnesskóla og byggja húsnæði yfir Skólahljómsveitina.  Snjóframleiðsla verði hafin í Bláfjöllum og endurnýjun búnaðar sem einnig er búið að ákveða sem og brú yfir Fossvogsdal.

Nokkrir punktar eru á valdi ríksins en ekki Kópavogs eins og bygging hjúkrunarheimilis við Boðaþing, fjölgun dagvistunarúrræða, leggja Reykjanesbraut í stokk eða göng og svo verkefnið endalausa sem sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið ár eftir ár en það er að ljúka við gerð Arnarnesvegar.

Nokkur atriði í samningnum eru tekin upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar og er það vel og munu bæjarfulltrúar flokksins að sjálfsögðu styðja við þau atriði. Þar má nefna: Sérhæfð úrræði fyrir börn með geðrænan vanda, Snemmtæk íhlutun og skimun, Bætt sálfræðiþjónusta og Efling íslenskukennslu og þjónustu fyrir börn og fjölskyldur af erlendum uppruna. Bæta á starfsumhverfi kennara og starfsfólks í leik og grunnskólum sem er vel og munu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar koma með tillögur þar að lútandi í menntaráð og bæjarstjórn í haust. Svo á að fjölga markvisst félagslegu húsnæði og öðrum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að byggja hagkvæmt húsnæði t.d. í samstarfi við húsnæðissamvinnufélög. Er þetta ánægjuleg þróun og ljóst að þarna hefur dropinn holað steininn því þótt sjálfstæðisflokkurinn og björt framtíð hafi fellt allar tillögur Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í þessum efnum virðast bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins hafa séð ljósið og hugmyndir í þessu efni náð inn í málefnasamninginn.

Nokkur atriði þurfa nánari skýringa við eins og hvað er átt við þegar Endurskoða á rekstrarfyrirkomulag félagslega íbúðakerfisins í Kópavogi. Gott að heyra frá bæjarstjóra að ekki standi til að einkavæða félagslega íbúðakerfið.  

Borgarlínan er hvergi nefnd á nafn en rætt um Þróun forgangsakreina fyrir almenningssamgöngur. Vona ég að ekki sé um stefnubreytingu að ræða þó bæjarfulltrúi Framsóknarflokks hafi verið andvígur Borgarlínu og að Kópavogur vinni að Borgarlínu í samstarfi við önnur sveitarfélög hér eftir sem hingað til.

Að lokum þá er tekið fram undir liðnum eldri borgarar Aukin virkni Öldungaráðs. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst. Öldungaráð fundaði mjög ört eftir að það var stofnað og hélt tvo almenna fundi með eldri borgurum. Ef það á að auka virknina sýnist mér að það þurfi að funda amk einu sinni í viku til að ná markmiðum málefnasamningsins.

Ég vil svo óska bæjarfulltrúum sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks alls hins besta í störfum sínum fyrir bæjarfélagið en jafnframt taka fram að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu veita þeim eðlilegt aðhald.

Ræða Bergljótar um fundargerð Skipulagsráðs

Vegna fundargerðar Skipulagsráðs frá 18.6.2018 liður 13.

Á 30. fundi skipulagsráðs þann 18. 6. 2018 óskaði ég eftir svari við tveimur spurningum: sú fyrri: hverju liði vinnu við endurskoðun deiliskipulags Kópavogsdals sem bæjarráð samþykkti að færi til gerðar fjárhagsáætlunar í mars 2016 og sú seinni: hvenær mætti vænta nýrrar hverfisáætlunar fyrir Kársnes.

Í svörunum kom fram að vinna við deiliskipulag Kópavogsdals hefur ekki hafist tveimur árum síðar og hverfisáætlun fyrir Kársnes er ekki tilbúin þrátt fyrir að blússandi uppbygging sé í gangi á nesinu. Íbúar Kópavogs geta því ekki enn séð hvernig lokaniðurstaða þeirrar uppbygginar mun líta út né haft skoðun á henni fyrr en mögulega allt of seint.

Þetta eru aðeins tvö dæmi um verkefni sem ekki eru unnin innan tímamarka þrátt fyrir að pólitísk forysta hafi samþykkt þau. Af hverju skildi það vera? Umhverfissvið Kópavogs hefur á að skipa öflugu liði en þeim eru skorður settar. Of mörg verkefni á sama tíma þýðir aðeins eitt. Einhverjum þeirra verður ekki sinnt.

Hvað lætur undan í endalausri uppbyggingu? Jú nærtækast er að geyma viðhald til síðari tíma. Allt sem getur beðið bíður. Hvaða áhrif hefur slík verkefnastýring? Sömu viðhaldslistarnir koma frá stofnunum bæjarins ár eftir ár því þeim er ekki sinnt. Að lokum þarf að fara í mjög dýrar aðgerðir til að afstýra niðurrifi ef það er þá hægt. Við höfum í dag dæmi um Kársnesskóla sem verður rifinn á næstu dögum, húsnæði bæjarskrifstofa var orðið svo heilsuspillandi að ekki þótti borga sig að gera við, búningsklefar íþóttahússins í Furugrund eru lokaðir vegna myglu og þannig mætti halda áfram að telja og viðhaldskostnaður eykst í réttu hlutfalli við tímann sem líður án viðhalds við hæfi.

Svona vinnubrögð hafa ekki aðeins áhrif á byggingarnar okkar heldur get ég ekki ímyndað mér að starfsfólk umhverfissviðs sé ánægt með ástandið. Of mikið álag til langs tíma er slítandi og er til marks um slaka stjórnsýslu. Það er ábyrgð kjörinna fulltrúa að tryggja að verkefni séu í samræmi við getu og að álag á starfsfólk bæjarins sé ásættanlegt svo hægt sé að vinna þau verkefni sem þarf að sinna. Við viljum halda í okkar góða starfsfólk og ekki setja það í þá stöðu að bæjarbúar beini spjótum sínum að þeim vegna vanáhalda sem er þó því miður of oft reyndin. Nú kalla ég eftir viðhaldsáætlun fyrir árið 2018 fyrir mannvirki bæjarins sem samþykkt var að setja fram í áætlunargerð síðasta árs.

 

Góð samvinna öllum að þakka

Betri Kópavogur hitti Ásu Richardsdóttur, fráfarandi bæjarfulltrúa okkar og heiðursætishafa Samfylkingarinnar.  Ása gaf ekki kost á sér að nýju fyrir þessar kosningar.

Ása , hvað ætlar þú að fara að gera?

Það sem ég hef verið að gera síðustu 24 ár. Ég hef starfað í leikhúsi og dansi frá 1994 en það ár stofnaði ég Kaffileikhúsið.  Síðustu 8 ár hef ég mest starfað sjálfstætt í norrænum, evrópskum og alþjóðlegum dansverkefnum. Ég dró í land síðustu 4 ár, það var töluvert tímafrekt að vera bæjarfulltrúi en nú ætla ég að þenja seglin og er meðal annars að undirbúa stærstu danshátíð sem haldin hefur verið á Íslandi.  Ég lifi og hrærist í listum, þar er minn staður.

Tímafrekt segirðu – hvað er þetta mikið starf?

Það fer alveg eftir því hvað þú leggur mikið í starfið.  Ég geri það sem ég tek að mér eins vel og ég get, ég set mig inn í málin, leita mér upplýsinga, tala við fólk og undirbý afstöðu mína.  Það hafa ansi margir fimmtudagar runnið upp og ég áttað mig á því að ég hef fátt annað gert en verið bæjarfulltrúi, þá vikuna. Ég myndi segja að þetta sé að lágmarki 50% vinna og fyrir það fáum við í dag 340 þúsund krónur á mánuði. Ég held að allir núverandi bæjarfulltrúar sinni starfinu af kostgæfni og vinni fyrir kaupinu sínu.

Á góðri stundi í sumrínu.jpg

Bíddu var ekki Theódóra í BF Viðreisn að segjast vilja lækka launin – og Miðflokkurinn kallar þetta “ofurlaun” í auglýsingum ?

Jú, það eru ýmsir að slá sig til riddara korter í kosningar, m.a. Theodóra, sem skrifaði undir ráðningasamning bæjarstjóra 2014, samþykkti allar breytingar á kjörum bæjarfulltrúa með atkvæði sínu og þiggur sjálf rúmar 800 þúsund krónur á mánuði sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi auk sem hún fékk um tíma full laun sem alþingismaður að auki. Það er í besta falli hjákátlegt að hlusta á hana sverja af sér launahækkun bæjarfulltrúa, í ljósi hennar eigin sögu.

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Ása í ræðustól í bæjarstjórn 22.5.18

Staðreyndir málsins eru þessar.  Þegar við settumst í bæjarstjórn voru bæjarfulltrúalaunin 175 þúsund á mánuði og höfðu ekki hækkað lengi. Starfið var metið 27% af þingfararkaupi.  Fyrri bæjarstjórn hafði skipað nefnd til að laga starfskjör bæjarfulltrúa, en komst ekki að samkomulagi. Við fólum forsætisnefnd að vinna málið og sumarið 2016 var samþykkt tillaga um að hækka starfshlutfall bæjarfulltrúa í 33% af þingfararkaupi. Launin fóru í 251 þúsund á mánuði.  Í nóvember sama ár koma hið fáranlega fyrirbæri kjararáð með 44% sprengjuhækkunina fyrir alþingismenn. Þeir fá nú rúma 1,1 milljón króna á mánuði. Launin okkar hefðu þá átt að hækka í samræmi við það, því samkvæmt samþykktum bæjarins tókum við laun miðað við laun alþingismanna. Við ákváðum, öll sem eitt, að aftengjast þeim launum og miða þess í stað við launavísitölu.  Laun okkar fóru þá í 317 þúsund og eru nú 340 þúsund krónur á mánuði. Ef einhverjum finnst það ofurlaun þá verður sá hinn sami að rökstyðja það, ég er ósammála.

En hvað með laun bæjarstjóra?

Samfylkingin ein flokka, greiddi atkvæði gegn upphaflegum launakjörum bæjarstjóra sumarið 2014. Það gerði varabæjarfulltrúinn Kristín Sævarsdóttir í bæjarráði með svohljóðandi bókun:

 
Fulltrúi Samfylkingarinnar mótmælir háum launakjörum bæjarstjóra, sem er ekki í neinu samræmi við launakjör flestra starfsmanna bæjarins.
 

Laun bæjarstjóra tóku líka breytingum skv. þingfararkaupi og Ármann átti því rétt á 44% hækkun í nóvember 2016, samkvæmt ráðningasamningi.

Við í Samfylkingunni stóðum að því með öðrum bæjarfulltrúum að aftengja okkar laun og bæjarstjóra við kjararáð. Ég stend með þeirri ákvörðun – hinn kosturinn, 46% hækkun og áframhaldandi tenging launa okkar við kjararáð, var miklu verri kostur.  

Okkar skoðun var, er og verður að heildarlaun bæjarstjóra séu of há enda greiddum við atkvæði gegn upphaflegum ráðningasamningi.  Ég heyri ekki betur en að flestir bæjarfulltrúar, þ.m.t. Ármann sjálfur, séu núna sömu skoðunar og vilji finna viðmið sem almenningur getur sætt sig við.   Að vera bæjarfulltrúi og bæjarstjóri er ábyrgðarstarf líkt og mörg önnur störf í samfélaginu.

 

Bæjarfulltrúum hefur verið tíðrætt hversu gott samstarf er í bæjarstjórn og maður fær á tilfinninguna að sumir flokkar hafi reynt að eigna sér heiðurinn af því?

Ertu þá að hugsa um Bjarta  framtíð – sem núna heitir BF Viðreisn?

Já, en það er alls ekki svo, eiginlega síður en svo. Hér skipta allir bæjarfulltrúar máli, hvar í flokki sem þeir standa og í raun er það móðgun við aðra bæjarfulltrúa að halda því fram að gott samstarf sé einum flokki að þakka umfram öðrum.  

Við höfum öll lagt okkur fram um að standa saman að góðum málum. Það er bjargföst trú mín að samstarf kjörinna fulltrúa, þar sem hlustað er á sjónarmið allra, skilar miklu betri árangri fyrir Kópavogsbúa. Um leið er mikilvægt að fylgja sannfæringu sinni og hvika hvergi. Við í Samfylkingunni höfum t.d. barist gegn slæmum ákvörðunum í umhverfismálum og nægir að nefna andspyrnu okkar gegn veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Lyklafellslínu sem dæmi. Stórmál sem ekki sér fyrir endann á.                    

Í skipulagsmálum höfum við staðið með íbúum í Furugrund og Nónhæð og viljað fara allt aðra leið en meirihlutinn varðandi Smáratorg og Dalveg.  En við höfum líka og oftar reynt að fá aðra í lið með okkur, í velferðarmálum, menningarmálum og fleiri málaflokkum og þegar á heildina er litið höfum við náð góðum árangri þrátt fyrir að vera í minnihluta með því að vinna með öðrum og öðlast traust samherja sem og mótherja.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Ása og Pétur á góðri stund í vetur. Mynd: Jóhann Ágúst Hansen.

Þér finnst þetta greinilega gefandi og gaman, af hverju ertu að hætta?

Þó ég sé að hætta í bæjarstjórn þýðir það ekki að ég sé að hætta pólitískum afskiptum.  Ég er alin upp á mjög pólitísku heimili og pabbi minn, Richard Björgvinsson heitinn, var oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi í 24 ár.  Ég fór aðra leið, fyrst í Kvennalistann og svo í Samfylkingina þar sem ég hef verið í ýmsum trúnaðar- og forystustörfum í 18 ár. Kannski kem ég aftur, það er aldrei að vita!

Hvað er þér efst í huga daginn fyrir kjördag?

Þakklæti og von um að þeir sem kjörnir verða í bæjarstjórn á laugardaginn hugsi fyrst og síðast um hagsmuni Kópavogsbúa  og þeir starfi saman af heilindum og trúnaði. Okkar hópur hefur verið þéttur á kjörtímabilinu, við Pétur gott teymi og vil ég þakka honum sérstaklega sem og varabæjarfulltrúunum okkar Kristínu og Bergljótu. Frábært fólk sem ég treysti alla leið!

Mig langar líka að þakka núverandi forseta bæjarstjórnar, Margréti Friðriksdóttur, sem hefur í sínum störfum gætt þess að vera forseti bæði meirihluta og minnihluta, sem skiptir miklu máli fyrir gott samstarf innan bæjarstjórnar. 

Svo vona ég að sem flestir nýti atkvæðisrétt sinn, hann er svo dýrmætur!

Andrea Björk
Kosningakaffi og kosningavaka

Á kjördag 26. maí bíður Samfylkingin í Kópavogi til kosningakaffis í Harmraborg 11, austursal Cafe Catalina. Að venju verður standandi veisluborð og frambjóðendur á vappi til að heilsa upp á gesti á milli kl. 14 og 17.

Um kvöldið breytum við um gír og höldum kosningavöku á sama stað frá kl. 21.30. Við fylgjumst saman með úrslitum kosninga og um miðnættið tekur við hörku ball fyrir alla þá sem verða í stuði.

Sjáumst hress

frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Akstur á kjörstað

Kæri kjósandi

Vanti þig far á kjörstað laugadaginn 26. maí eða í Smáralind í utankjörfundaratkvæðagreiðslu getur þú hringt í síma 611-2393 hjá Samfylkingunni í Kópavogi og óskað eftir aðstoð. Við aðsoðum með glöðu geði.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Við gefum taupoka

Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar í Kópavogi er plastpokalaus Kópavogur. Við viljum stefna að því að verslanir í Kópavogi hætti alfarið að nota plastburðarpoka.Til að minna á þetta mikilvæga mál höfum við verið á vappi við verslanir og gefið taupoka til að minna á þetta stefnumál okkar. Viðtakendur hafa verið afar þakklátir enda flottir pokar.

Kjósum nýjan bæjarstjóra í Kópavogi

Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi og bæjarstjóraefni leiðir lista Samfylkingarinnar í Kópavogi en hann hefur sterkar tengingar til bæjarins allt í kringum sig.

Hvernig stóð á því að þú fluttir úr Reykjavík í Kópavog?

„Ég flutti í Kópavoginn fyrir rúmum þrjátíu árum til að elta Sigrúnu Jónsdóttir eiginkonu mína en hún er uppalin í Kópavogi og vildi hvergi annars staðar búa, enda með sterkar taugar til bæjarins eins og ég átti fljótlega eftir að komast að.” Sigrún hefur verið virk í pólitík frá háskólaárunum en þegar hún var 23 ára tók hún þátt í að stofna Kvennalistann og hún sat um tíma í bæjarstjórn fyrir Kópavogslistann og síðar Samfylkinguna í Kópavogi. “Ég fetaði svo í hennar fótspor, en Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í og hefur drifið mig áfram í baráttunni þegar það hefur verið á brattann að sækja. Hún kann líka að vinna kosningar eins og við ætlum að gera hér í Kópavogi á laugardaginn.“

Pétur við upplestur ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur vegna félagslegs húsnæðis.jpg
Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Svanhvít, unnusta elsta sonarins með sonum sínum

Saman eiga Pétur og Sigrún þrjú börn sem hafa öll alist upp í Kópavogi og hafa sterkar rætur til bæjarfélagsins hvert á sínu sviði.  

„Ég er heppinn að eiga þrjú heilbrigð en mjög ólík börn, yngst er Jóna Þórey sem er komin út í pólitík eins og foreldrarnir en hún er oddviti Röskvu í Háskóla Íslands og vann stórsigur í kosningum til Stúdentaráðs í vetur. Elsti sonurinn, Sigurður Hrafn, hefur verið viðloðandi fimleikastarf í Gerplu í 25 ár, fyrst sem iðkandi og svo sem þjálfari og alþjóðlegur dómari. Hann fylgdi svo í fótspor föðursins og er í sambúð með Kópavogskonunni Svanhvíti Sigurðardóttur og saman eiga þau tvíburana Einar Hrafn og Arnar Loga. Þau búa í Kópavoginum og gengu bæði í MK á sínum tíma."

 
Sigrún á stóran þátt í því af hverju ég hef heillast af stjórnmálum, hún sýndi mér að það væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið sem við búum í.
 

Miðjubarnið er svo afrekshlauparinn Arnar Pétursson, en var Pétur Hrafn lunkinn hlaupari á sínum tíma?

„Ég var sjálfur í fótboltanum lengi vel og spilaði meira að segja sem atvinnumaður á Hornafirði í gamla daga“ segir Pétur og hlær. „Ég verð seint talinn mikill hlaupari en mitt helsta afrek er líklega þegar ég hljóp heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 2005. Þó að tíminn hafi ekki verið sérstakur varð þetta til þess að Arnar fékk alvöru áhuga á að hlaupa maraþon og núna hefur hann sett stefnuna á Ólympíuleikana 2020. Það væri algjör draumur að fjölskyldan myndi fara saman til Tókýó og fylgjast með.”

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

Pétur með sonum sínum, Arnari og Sigurði, og barnabörnum

 
Til þess að vera góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi.
 
Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Hjónin og dóttir þeirra, Jóna Þórey, á leik íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í Helsinki

Þetta hljómar eins og mikið íþróttaheimili, er öll fjölskyldan á kafi í íþróttum?  

„Okkur Sigrúnu fannst mikilvægt að senda börnin snemma í íþróttir því þær eru góður undirbúningur fyrir framtíðina. Ekki nóg með að þar læri krakkar ákveðna félagsfærni og öðlist hreyfigreind, heldur hjálpar íþróttaiðkun krökkum að átta sig á því að til þess að verða góð í einhverju þá þarf að vinna í því á hverjum einasta degi. Þetta er hugarfar sem ég hef tamið mér og reynt að smita út frá mér og vona ég það að skili sér til bæjarbúa í mínum verkum í bæjarstjórn Kópavogs.”

Það er kominn tími á nýjar áherslur í Kópavogi og ekki síst tími til að fá nýjan bæjarstjóra í Kópavog.

Andrea Björk
1. maí kaffi á Kaffi Catalina!
group5.jpg

Samfylkingin í Kópavogi fagnar 1. maí með kaffisamsæti í
hliðarsal Catalina í Hamraborg 11, 1. hæð, þar sem Kópavogsapótek var forðum.
Húsið opnar kl. 15.

Guðmundur Andri þingmaður og Margrét Tryggvadóttir varaþingmaður heiðra samkomuna með ræðum. 
Tónlist, fjöldasöngur og bakkelsi af öllum sortum mun gleðja andann.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir

Samfylkingin í Kópavogi

Andrea Björk
Málefnafundur í Salaskóla
Salaskoli.jpg

Laugardaginn 17. mars n.k. kl. 10 - 14 verður haldinn í Salaskóla, málefnavinnufundur Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Grasrót Samfylkingarinnar í Kópavogi kemur saman og veltir upp þeim málum sem við eigum að berjast fyrir á næsta kjörtímabili.
Málefnavinnunni verður stýrt svo við fáum sem mest út úr þessum fundi.
Við þurfum að fá öll sjónarmið upp á borðið. Til þess þurfum við þig.

Kveðja
Stjórnin

Aðalfundur Samfylkingarinnar í Kópavogi

Verður haldinn í Hlíðasmára 9, mánudaginn 26. mars n.k. kl. 20

Dagskrá er sem hér segir:

  1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar og nefnda fyrir liðið starfsár eftir því sem við á
  3. Áritaðir reikningar fyrra árs lagðir fram til umræðu og samþykktar
  4. Breytingar á samþykktum
  5. Kjör stjórnar
  6. Kjör félagslegra skoðunarmanna reikninga
  7. Kjör uppstillinganefndar
  8. Kjör í nefndir og ráð á vegum félagsins
  9. Önnur mál.

Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til stjórnarsetu eða sem skoðunarmann reikninga eða vilja tilnefna þriðja aðila eru beðnir um að senda póst þar um á netfangið betrikopavogur@gmail.com.
Engar breytingatillögur hafa borist vegna samþykkta félagsins og verða því engar. skv. lið 13.3 í samþykktum félagsins.

13.3 Tillögur að breytingum á samþykktum skulu hafa borist stjórn fyrir 20. janúar og skulu sendar með aðalfundarboði.

Stjórnin

Bæjarmálafundur mánudaginn 12. 3 kl. 20
Bæjarmálafundur.jpg

Bæjarmálafundur Samfylkingarinnar í Kópavogi verður haldinn mánudaginn 12. mars kl. 20.00 að Hlíðarsmára 9. 

Á fundinn mæta nefndarfulltrúar Samfylkingarinnar og gera grein fyrir stöðu mála í  sínum nefndum. Enn fremur fara bæjarfulltrúar yfir stöðu mála í bæjarstjórn. 

 Fundarstjóri er Pétur Hrafn Sigurðsson bæjarfulltrúi

ALLIR VELKOMNIR, TAKIÐ MEÐ YKKUR GESTI!

 

Félagsfundur með Guðmundi Andra

Þann 12. febrúar kl. 20 verður haldinn félagsfundur í húsnæði Samfylkingarinnar í Kópavogi að Hlíðasmára 9.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar kemur til okkar í létt spjall um málefnin á alþingi.

Allir velkomnir, sérstaklega nýir og áhugasamir.

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarmálafundur og undirbúningur kosninga

Hvar: í Hlíðasmára 9
Hvenær: Mánudagskvöldið 29. janúar n.k. kl. 20

Pétur Hrafn og Ása Richards bæjarfulltrúar okkar munu ræða helstu málefnin sem þau hafa barist fyrir upp á síðkastið.
Í lokin verða umræður um undirbúning kosninga í vor.

Allir að mæta - tökum þátt

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir
Framboðslisti borinn upp til samþykktar

Í kvöld mánudaginn 15. janúar verður framboðslisti Samfylkingarinnar í Kópavogi borinn upp til samþykktar á félagsfundi. Fundurinn verður haldinn í sal Fornbílaklúbbsins gegnt sal Samfylkingarinnar í Hlíðasmára 9, Kópavogi.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta og styðja við starfið.

Stjórnin

Bergljót Kristinsdóttir