Atvinnulíf og nýsköpun

Höfuðborgarsvæðið, þar sem rúmlega 60% landsmanna búa, er eitt atvinnusvæði. Ein helsta miðstöð verslunar- og þjónustu á Íslandi er í Kópavogi, Smáralindin. Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki í nágrenni hennar. Þetta er svæði sem allir landsmenn nýta og njóta.

Um allt sveitarfélagið eru fyrirtæki, stór og smá, sem hafa byggt upp starfsemi sína og sum hver hafa verið í Kópavogi í áratugi. Atvinnulífið, menningarlífið, tómstunda- og menntastofnanir í Kópavogi vinna saman að því að gera bæjarfélagið okkar skemmtilegra, fjölbreyttara og kröftugra.

Það er hlutverk Kópavogs að sjá til þess að atvinnusvæði standist kröfur 21. aldar um gott aðgengi, öruggar samgöngur fyrir alla, grænt umhverfi og séu í takt við hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Fyrir utan að standa vörð um þá þjónustu fyrirtækja sem eru í bænum er mikilvægt að Kópavogur sæki fram í vaxtargreinum líkt og ferðaþjónustu, skapandi greinum og hugvitsgeira. Uppbygging ferðaþjónustu er nátengd uppbyggingu menningarstarfs og varðveislu menningarminja auk þess sem bætt aðgengi ferðamanna að verslun í Kópavogi skiptir sköpum.

Við viljum:

  • Vinna að bættu umhverfi atvinnusvæða, sérstaklega með grænum aðgerðum.

  • Þróa núverandi og ný atvinnusvæði þar sem áhersla verður lögð á starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

  • Koma á fót nýsköpunarreit í Kópavogi ætluðum sprotafyrirtækjum t.d. við Dalveg.

  • Setja á fót hvata sem laða að fyrirtæki í ferðaþjónustu, skapandi greinum og hugvitsgeira að þjónustu í Kópavogi.

  • Styðja íþróttafélögin í bænum til að halda stóra íþróttaviðburði, bæði innlenda og alþjóðlega. Afleidd störf af stórum íþróttamótum eru mörg.